Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Slóveníu

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 15:46:21 (2775)

1996-02-07 15:46:21# 120. lþ. 86.7 fundur 286. mál: #A fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Slóveníu# þál. 7/1996, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur


[15:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir till. til þál. á þskj. 525 um fullgildingu fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Slóveníu. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli EFTA-ríkja og Slóveníu, sem gerður var í Bergen 13. júní 1995.``

Fríverslunarsamningurinn er hliðstæður þeim fríverslunarsamningi sem EFTA-ríkin hafa gert við ríkið í Mið- og Austur-Evrópu. Samningurinn kveður á um fríverslun milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Slóveníu hins vegar um iðnaðarvörur. Einnig nær samningurinn til fisks og fiskafurða sbr. II. viðauka samningsins og til vara sem unnar eru að hluta eða öllu leyti úr landbúnaðarvörum. Nánar er kveðið á um framkvæmd viðskipta með þær vörur í bókun A við samninginn.

EFTA-ríkin og Slóvenía afnema alla innflutningstolla á iðnaðarvörum sem upprunnar eru í þessum löndum og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif. Fyrir vissar iðnaðarvörur fær Slóvenía aðlögunartíma fyrir niðurfellingu tolla, en að öðru leyti falla tollar niður strax við gildistöku samningsins. Tollar falla niður á fiski og fiskafurðum strax við gildistöku samningsins með örfáum undantekningum þar sem um aðlögunartíma er að ræða. Þessi aðlögunartími tekur einkum til vatnafisks.

Varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur lýsa samningsríkin sig reiðubúin að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir að stuðla að samfelldri þróun viðskipta með landbúnaðarvörur. Í tengslum við fríverslunarsamninginn gerðu EFTA-ríkin tvíhliða samninga um landbúnaðarmál við Slóveníu. Samkvæmt þessum tvíhliða samningi Íslands og Slóveníu um landbúnaðarmál lækkar Ísland tolla á nokkrum tegundum suðrænna ávaxta og nokkrum vörum sem unnar eru úr þessum ávöxtum.

Slóvenía og EFTA-ríki önnur en Ísland hafa þegar fullgilt fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Slóveníu. Samningurinn tekur gildi gagnvart Íslandi á fyrsta degi annars mánaðar eftir að við höfum fullgilt þennan samning.

Árið 1994 fluttu Íslendingar út vörur til Slóveníu fyrir 17,9 millj. kr., einkum fiskafurðir. Innflutningur frá Slóveníu var mun minni eða 1,9 millj. kr. sama ár. Það má fastlega gera ráð fyrir að viðskipti landanna aukist þegar fríverslunarsamningurinn tekur gildi.

Í ljósi þessa legg ég til að við lok þessarar umræðu verði tillögunni vísað til utanrmn. og síðari umr. Ég treysti því að nefndin sjái sér fært að taka málið til umfjöllunar eins fljótt og verða má.