Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 10:32:03 (2777)

1996-02-08 10:32:03# 120. lþ. 87.1 fundur 296. mál: #A stjórn fiskveiða# (umframveiði síldar og hörpudisks) frv. 16/1996, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[10:32]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á þskj. 535 er frv. til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Þar er um að ræða breytingu sem felur í sér að heimilt verði að yfirfæra veiði á síld sem nemur 5% umfram aflamark á milli fiskveiðiára. Þetta er gert til að koma á sambærilegri reglu milli síldveiða og veiða á hefðbundnum botnfisktegundum. Eðlilegt þykir að sama regla gildi um síldveiðar eins og veiðar botnfisktegunda að þessu leyti. Jafnframt er gert ráð fyrir því að sams konar samræming verði gerð milli hörpudisksveiða og veiða á innfjarðarækju þar sem heimild af þessu tagi er 3%.

Herra forseti. Mikilvægt er vegna yfirstandandi síldarvertíðar að Alþingi afgreiði þessa breytingu svo fljótt sem verða má og vænti ég að gott samstarf geti tekist við hv. sjútvn. um þessa breytingu. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.