Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 10:33:47 (2778)

1996-02-08 10:33:47# 120. lþ. 87.2 fundur 285. mál: #A þjóðminjalög# (flutningur menningarverðmæta) frv. 60/1996, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[10:33]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á þjóðminjalögum, nr. 88 29. maí 1989, með síðari breytingum. Frv. þetta er flutt vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og það hefur að geyma ákvæði sem munu mynda nýjan kafla, VI. kafla í þjóðminjalögum, nr. 88/1989, með síðari breytingum, ef að lögum verður.

Með frumvarpinu er einkum stefnt að lögfestingu efnisákvæða tilskipunar ráðs Evrópusambandsins 93/7 EEC frá 15. mars 1993 um skil menningarminja, sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis, en íslenska ríkið, sem er aðili að samningi um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992 ásamt ýmsum viðbótum, breytingum og bókunum við hann, sbr. lög nr. 2 frá 13. janúar 1993, er skuldbundið til að lögleiða þessi ákvæði. Þá er einnig haft mið af reglum ráðs Evrópusambandsins nr. 3911/92 EEC um útflutning menningarminja sem hafa mjög náin tengsl og samsvörun við ákvæði fyrrnefndrar tilskipunar. Í frumvarpinu koma jafnframt fram almenn stefnumið varðandi útflutning þeirra menningarminja sem hafa sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu, án tillits til skilyrða fyrrnefndrar tilskipunar, og um almennt bann við innflutningi erlendra menningarminja, fari sá flutningur fram í andstöðu við löggjöf í því ríki sem flutt er frá.

Íslenska ríkið hafði, ásamt öðrum Norðurlandaríkjum að danska ríkinu undanskildu, skuldbundið sig til þess að lögleiða ákvæði fyrrnefndrar ráðstilskipunar Evrópusambandsins eigi síðar en 1. jan. 1995 en nokkur dráttur hefur orðið á undirbúningi þessarar löggjafar hér á landi.

Mikilvægt er að skýrar lagareglur gildi á þessu sviði en ákvæði 28. gr. þjóðminjalaga, nr. 88/1989, með síðari breytingum, sem nú er hið eina ótvíræða ákvæði í íslenskum lögum, almenns eðlis, um takmarkanir á útflutningi menningarminja, er með öllu ófullnægjandi sé haft mið af nauðsyn þess að samræma íslenska löggjöf fyrrnefndri tilskipun og reglum Evrópusambandsins. Í frumvarpinu er því lagt til að ákvæðið í 28. gr. þjóðminjalaga verði fellt úr gildi en í staðinn komi í sérstökum kafla laganna mun ítarlegri ákvæði um útflutning menningarminja auk nýrra ákvæða um hömlur við innflutningi menningarminja þegar sérstaklega stendur á en um það efni finnast engar skýrar reglur í núgildandi löggjöf.

Minnt skal á að auk samningar fyrrnefndra reglna Evrópusambandsins um þessi efni, er almennt hafa verið lögteknar í aðildarríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis, hafa ýmsar alþjóðlegar stofnanir látið sig varða þau málefni er efni þessa frumvarps lýtur að. Má þar m.a. nefna sumar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, svo sem UNESCO og UNIDROIT í Rómaborg er nýverið gekkst fyrir gerð alþjóðlegs sáttmála sem ætlað er að stemma stigu við þjófnaði eða annarri löglausri töku menningarminja og útflutningi þeirra í kjölfar þess athæfis. Íslenska ríkið er að vísu ekki aðili að þeim sáttmála en við samningu þess frumvarps, er hér liggur fyrir, var þó m.a. haft nokkurt mið af því alþjóðlega vandamáli sem hér um ræðir.

Hvað varðar ákvæði frumvarpsins um útflutning menningarminja skal sérstaklega tekið fram að þeim er ekki ætlað að víkja til hliðar eða koma í stað núgildandi lagafyrirmæla eða annarra reglna er snerta leyfi hlutaðeigandi menningarstofnana hér á landi til þess að lána íslenska þjóðardýrgripi á sýningar erlendis, sjá m.a. 1. gr. laga nr. 70/1972, um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Ákvæði frumvarpsins hafa að geyma undantekningar frá viðurkenndum stefnumiðum innan hins Evrópska efnahagssvæðis um frjálst vöru- og viðskiptaflæði milli aðildarríkja nefnds milliríkjasamnings. Þau hafa því öðrum þræði viðskiptalega þýðingu gagnstætt því sem gildir um fyrrnefnd ákvæði laga um lánsheimildir íslenskra safna til annarra landa í menningarlegum tilgangi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til 2. umr og hv. menntmn.