Afréttarmálefni, fjallskil o.fl.

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 11:01:10 (2782)

1996-02-08 11:01:10# 120. lþ. 87.4 fundur 284. mál: #A afréttarmálefni, fjallskil o.fl.# (Bændasamtök Íslands) frv. 9/1996, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[11:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. Um er að ræða 284. mál þingsins á þskj. 523.

Frv. er samið í landbrn. og með því er lagt til að verkefni Búnaðarfélags Íslands samkvæmt núgildandi lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. verði færð til nýrra heildarsamtaka bænda, Bændasamtaka Íslands.

Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda voru, eins og mönnum er kunnugt, sameinuð með lögum nr. 130/1994. Í 4. gr. þeirra laga er kveðið á um að endurskoða skuli öll lög og lagaákvæði þar sem vísað er til Búnaðarfélags Íslands eða Stéttarsambands bænda og með þeirri endurskoðun tekin afstaða til þess hvort hin nýju samtök bænda tækju við því hlutverki eða hvort það yrði fengið öðrum aðila.

Að því hefur verið unnið á vegum landbrn. og er þess að vænta að frv. þar að lútandi verði lagt fyrir Alþingi í þessum mánuði. Það frv. tekur til breytinga á 34 lögum sem bæði heyra undir landbrn. og í sumum tilfellum undir önnur ráðuneyti og er því í ,,bandormsformi``.

Ástæða þess að afréttarlögin eru hér tekin út úr þeim hópi laga sem breyta þarf vegna sameiningar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda og frv. þetta er nú flutt er sú að umboð markanefndar, sem starfar samkvæmt 69. gr. laganna, er útrunnið fyrir nokkru og brýna nauðsyn ber til að skipa hana að nýju. Hlutverk markanefndar er að fylgjast með framkvæmd laga, reglugerða og samþykkta um mörk og markaskrár og vera til ráðuneytis um þau mál. Þá úrskurðar markanefnd í ágreiningsmálum sem upp geta komið vegna skráningar á búfjármarki, synjun markavarða um skráningu og niðufellingu marka vegna sammerkingar. Á þessu ári ber samkvæmt afréttarlögum að gefa út markaskrá í sýslum landsins og er þegar byrjað að undirbúa útgáfu skránna á vegum markavarða í sýslunum. Skráningu búfjármarka í markaskrá fylgja ýmis ágreiningsmál um eignarrétt að búfjármarki sem unnt er að skjóta til úrskurðar hjá markanefnd. Við síðustu útgáfu markaskrár árið 1988 fékk nefndin 114 mál til úrskurðar. Samkvæmt 69. gr. afréttarlaganna tilnefndi Búnaðarfélag Íslands og sauðfjársjúkdómanefnd hvor sinn mann í markanefndina en sá þriðji er skipaður án tilnefningar og er hann formaður nefndar. Sauðfjársjúkdómanefnd var lögð niður skv. lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25 frá 1993, og voru verkefni hennar færð yfir til embættis yfirdýralæknis. Þannig var yfirstjórn allra sjúkdómavarna færð á eina hendi. Þykir því eðlilegt að yfirdýralæknir tilnefni einn mann í markanefnd eins og lagt er til í 2. gr. frv. í stað þess að þann mann skyldi áður tilnefna í sauðfjársjúkdómanefndina sem nú hefur verið lögð niður eins og áður hefur komið fram.

Í frumvarpi þessu er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við öllum verkefnum Búnaðarfélags Íslands eins og þau eru tilgreind í núgildandi lögum um afréttarmálefni. Verkefnin eru tilgreind í athugasemdum með frv. í tölulið 1--5 og vísa ég til þeirra.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um efni frv. en legg áherslu á að það fái skjóta afgreiðslu í þinginu vegna þeirra efnisraka sem ég hef hér áður nefnt.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. að lokinni 1. umr.