Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 13:44:07 (2785)

1996-02-08 13:44:07# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[13:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar eigum eina bestu heilbrigðisþjónustu í heiminum. Við eigum mjög hæft og vel menntað starfsfólk á öllum sviðum. Við búum yfir fullkomnustu tækjum, fullkomnum sjúkrahúsum og nýlegum heimilum fyrir aldraða. Velferðarkerfi okkar er með því besta í heiminum, umönnun aldraðra og sjúkra er með því besta sem þekkist. Þetta eru staðreyndir sem við öll þekkjum og höfum reynt.

Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar er að draga úr halla ríkissjóðs og ná jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu tveimur árum. Náist þau markmið tryggjum við enn betur velferð. Þessu má líkja við heimilishald sem nær sér úr skuldaklafa og eykur þannig svigrúm sitt til aukinna lífsgæða. Öflugt velferðarkerfi verður aldrei rekið til langframa á lánum einum saman. Framlög til heilbrigðis- og tryggingamála eru stærstu einstöku útgjaldaliðir á fjárlögum. Enginn sem ber ábyrgð á málaflokki getur skotið sér undan því að takast á við sífellda endurskoðun á skipulagi, uppbyggingu, fjármögnun og verklagsreglum innan þessa málaflokks. Innbyggð hækkun í málaflokknum er m.a. fólgin í hlutfallslegri fjölgun aldraðra, nýrri tækni og dýrari lyfjum.

[13:45]

Nokkur undanfarin ár hafa t.d. ný lyf aukið lyfjakostnað um hundruð millj. kr. Þrátt fyrir mikinn árangur í aðhaldsaðgerðum hvað varðar kaup á lyfjum eru allar líkur á að heildarkostnaður vegna lyfjakaupa aukist í framtíðinni. Við setjum nú gerviliðamót í einstaklinga sem fyrir nokkrum árum fengu stífa liði, staurfætur og urðu örkumla. Slíkar aðgerðir kosta hundruð þúsunda króna en í staðinn nær einstaklingurinn oft fullri vinnugetu og auknum lífsgæðum.

Tryggingastofnun ríkisins kostar aðgerðir á sjúklingum erlendis sem aðeins eru gerðar á fáum stöðum í heiminum og varla þekktust fyrir 5--10 árum. Þessar aðgerðir eru nánast kraftaverk og kosta jafnvel milljónatugi hver. Dæmi er til um að aðgerð á einum einstaklingi og eftirfarandi meðferð geti kostað allt upp í 100 millj. kr. sem er svipað og rekstur eins héraðssjúkrahúss yfir árið. Eftir þessum aðgerðum var enginn biðlisti fyrir nokkrum árum því aðgerðirnar voru einfaldlega ekki gerðar. Hver ný tegund aðgerða kallar á biðlista, samanber hryggspengingaraðgerðir sem ekki voru gerðar hér fyrir þrem árum síðan. Hjartaaðgerð var framkvæmd fyrst árið 1986 og nú eigum við líklega heimsmet í aðgerðafjölda þrátt fyrir biðlista.

Ég get talið upp margar fleiri nýjungar sem bæst hafa við okkar ágætu heilbrigðisþjónustu á síðustu árum og tala nokkuð af eigin reynslu, því ég hef fylgst með þessari þróun í 25 ár.

Flestar þjóðir leggja eins og við Íslendingar mikinn metnað í að sinna sjúklingum vel. En við erum stödd á krossgötum milli þess sem er tæknilega mögulegt og þess sem við höfum fjárhagslegt bolmagn til. Á árunum 1984--1995 hafa útgjöld til almennra sjúkrahúsa á verðlagi ársins 1995 aukist úr 14 milljörðum í 16,7 milljarða eða um rúm 19%. Greiðslur vegna öldrunarþjónustu og endurhæfingar hafa á sama tímabili aukist úr 2,2 milljörðum í 4,7 milljarða eða um tæp 114%, útgjöld heilsugæslu úr 3 milljörðum í 4,8 milljarða eða um 60% og framlög til lyfja- og hjálpartækja úr 2,6 milljörðum í 3,9 milljarða eða um 50%. Á þessum sama tíma hefur landsmönnum fjölgað um 11%.

Þeirri þróun sem ég hef lýst er engan veginn lokið. Við Íslendingar eins og aðrar þjóðir stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að möguleikar okkar til að sinna ýmsum verkefnum á sviði velferðarmála sem tengjast heilbrigðisþjónustu og almannatryggingum eru mun meiri en við teljum okkur hafa ráð á.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að sú umræða sem nú fer fram á Alþingi Íslendinga er ekki einstök. Sams konar umræða fer fram í nágrannalöndum okkar, í Þýskalandi, á Bretlandi en ekki síst á Norðurlöndum. Hér á landi jafnt sem erlendis hafa menn bent á ýmsar leiðir til að mæta vandanum.

Einföld leið er að hækka skatta og auka útgjöld. Flestir fræðimenn eru þó sammála um að það leysi ekki vandann. Eftirspurn eftir þjónustu eltir einfaldlega framboðið. Ég hef talið hóflegan nefskatt koma til greina til þess að vinna okkur tíma til að móta framtíðarstefnu í heilbrigðis- og velferðarmálum. Hvernig sem við tökumst á við útgjöld vegna heilbrigðisþjónustu er eitt alveg ljóst. Við getum ekki aukið útgjöldin nema á móti komi annaðhvort auknar tekjur eða niðurskurður í öðrum málaflokkum. Þjóð sem skuldar 220 milljarða, tvöfalda veltu ríkissjóðs á heilu ári, og greiðir 34 milljarða á ári í afborganir og vexti sem er hærri upphæð en allur rekstur heilbrigðisþjónustunnar í landinu, getur ekki leyft sér að auka skuldir. Við berum einfaldlega þá ábyrgð að börn og barnabörn okkar eigi kost á svipuðu velferðarkerfi og okkar kynslóð. Okkur ber að tryggja að fjármunum sé skynsamlega varið á hverjum tíma.

Í minni vinnu hef ég lagt höfuðáherslu á hagræðingu innan heilbrigðisþjónustunnar og uppstokkun kerfisins sem gerir okkur kleift að ná fram meiru fyrir minna. Áreynslulítið getum við nýtt alla skattpeninga þjóðarinnar til heilbrigðis- og velferðarmála. En við erum á krossgötum og verðum að taka upp nýjar aðferðir, aðferðir sem skila okkur til lengri tíma meiri stefnufestu og stöðugleika. Slíkt er þó engan veginn einfalt. Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli á að möguleikar í hagræðingu innan hverrar stofnunar með einhvers konar flötum niðurskurði séu sjálfsagt að mestu tæmdir. Flest sem snýr að skipulagi og hagræðingu í heilbrigðisþjónustu er heilsupólitík og því hef ég lagt áherslu á að stjórnarandstaðan eigi aðild að allri þeirri stefnumótunarvinnu sem nú er í gangi á vegum ráðuneytisins. Ég tel að stjórnarandstaðan verði að eiga verulega aðild að þeirri vinnu sem þarf að fara fram í þessum málaflokki ef við ætlum að ná árangri. Ég studdi það að formaður heilbr.- og trn. kæmi frá stjórnarandstöðu. Ég hef skipað stjórnarandstæðinga í þrjár nefndir sem nú eru að vinna að tillögum hver á sínu sviði og allar snerta hagræðingu og stefnumörkun. Það er nefnd sem vinnur að tillögum um skipulag, hlutverk og fyrirkomulag svæðisbundinna heilbrigðisstjórna, nefnd um forgangsröðun í íslenskum heilbrigðismálum og nefnd um framtíðarþróun í íslenskum heilbrigðismálum.

Ég tel að sú góða reynsla sem menn hafa af þátttöku stjórnarandstöðu í stefnumótun í heilbrigðismálum á Norðurlöndum geti nýst okkur Íslendingum líka. Ég tel að með þessum hætti megi fá ítarlega umræðu um málin og að okkur takist að koma í framkvæmd málum sem ekki þarf að vera pólitískur ágreiningur um. Ég vona að stjórnarandstaðan virði þessa viðleitni.

Mér hefur verið nokkuð tíðrætt um hagræðingu í heilbrigðisþjónustunni. Ég bind miklar vonir við árangur þar. Ég hef verið mikið gagnrýnd síðustu vikur fyrir gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni og breytingar á ýmsum bótum. Fjárlög eru hins vegar staðreynd sem mér sem ráðherra ber að framkvæma. Grundvallarstefna mín í breytingum á gjaldtökunni er að verja þá sem minnst hafa handa á milli. Hinir sem betur eru stæðir eiga að mínu mati að taka á sig auknar byrðar fremur en þeir sem fæstar krónur hafa til framfærslu.

Niðurstaðan við fjárlagagerðina nú varð til þess að tryggja mætti viðgang velferðarkerfisins. Skyldu ýmsar lágar greiðslur hækkaðar. Þess hefur þó alls staðar verið gætt að hækka hvergi þök á hámarksgreiðslum sem tryggja hagsmuni þeirra sem oft þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu þannig að þegar öryrkjar og aldraðir 70 ára og eldri hafa greitt 3.000 kr. í lækniskostnað greiða þeir 1/3 af gjaldinu eftir það. Þegar greitt hefur verið fyrir börn í sömu fjölskyldu 6.000 kr. á ári er einungis greiddur 1/3 eftir það. Þessu er sleppt í umræðunni.

Ég hef líka gætt þess að þær hækkanir sem gerðar hafa verið og snerta 67--70 ára komi eingöngu til framkvæmda hjá þeim sem hafa meira en um það bil eina millj. kr. í heildartekjur. Sama gildir um öryrkja sem eru mest fatlaðir og þurfa á bílastyrk að halda. Fjöldi styrkja og styrkfjárhæð fyrir þennan hóp er óbreyttur. Ég get ekki fallist á að þeir sem betur mega sín í þjóðfélaginu geti keypt þjónustuna umfram aðra. Ég get hins vegar eins og ég sagði áðan tekið undir með Morgunblaðinu þegar það segir í leiðara fyrir nokkrum dögum síðan, með leyfi forseta:

,,Þess vegna getur vel komið til greina að auka greiðslur þeirra, sem meiri tekjur og efni hafa, til hagsbóta fyrir hina.``

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um stöðu og framtíð sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu vil ég víkja sérstaklega að þeim. Það verður að segja sjúkrahúsunum til hróss að þrátt fyrir mikið aðhald á undanförnum árum hefur þeim tekist að halda vel á málum og innleiða flest það mikilvægasta sem snýr að nýjungum í heilbrigðisþjónustu. Ýmislegt hefur verið sagt um sjúkrahúsin í Reykjaavík á undanförnum árum og sýnist sitt hverjum. Þar hefur umræðan snúist allt frá því að halda þrem sjúkrahúsum í Reykjavík í að hagkvæmast væri að reka hér einn hátæknispítala í samkeppni við læknaþjónustu erlendis.

Við höfum aldrei verið ráðþægir Íslendingar og álitsgerðum virtra ráðgjafarfyrirtækja hefur ekki verið fylgt eftir í þessum efnum. Ég finn vel fyrir því að mjög skiptar skoðanir eru um þetta mál, bæði meðal heilbrigðisstétta og ekki síður í stjórnmálaflokkum. Mikill metnaður ríkir á stofnunum en gæta verður þess að hann snúist ekki upp í samkeppni milli deilda og stofnana um fjármagn ríkissjóðs.

Í síðustu viku ákvað ég að miðstöð áfallahjálpar yrði á slysastofu Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ég veit að stjórnendur Ríkisspítala telja eðlilegra að geðdeild Landspítalans gegni þessu hlutverki.

Við höfum séð í fjölmiðlum umræðuhugmyndir Sjúkrahúss Reykjavíkur um að flytja endurhæfingardeild frá Grensási í aðalbyggingu Borgarspítalans í Fossvogi og minnka hana og jafnframt flytja geðdeild í húsnæði Grensásdeildar. Svona breytingar kosta tugi milljóna. Ég tel slíkar breytingar ekki ásættanlegar á sama tíma og fyrirhuguð er uppbygging á endurhæfingu í Kópavogi á vegum Ríkisspítala. Slík uppbygging kostar enn meira.

Á Landspítala standa tvær skurðstofur ónotaðar vegna sparnaðar. Sjúkrahús Reykjavíkur telur sig vanta tvær. Hver skurðstofa kostar 25--30 millj. kr.

Ég nefni einungis þessi örfáu dæmi. Hægt væri að nefna til mörg önnur. Lái mér hver sem vill þó ég segi: Hingað og ekki lengra. Þessi sjúkrahús verða að ná betri samhæfingu. Það verður einfaldlega að nást sátt milli stofnana á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og uppbyggingu þessarar mikilvægu starfsemi. Sjúklingarnir, starfsfólkið og skattborgararnir eiga kröfu á því að farið sé eins vel með fé almennings og frekast er unnt, að því fjármagni sem til er sé ekki sóað í óþarfa tvöföldun á starfsemi eða tilflutninga heldur til að halda uppi sem mestri þjónustu við sjúklinga. Það er kominn tími til að finna lausn á þessu viðkvæma máli, ekki síst til þess að starfsfólk og stjórnendur þessara stofnana telji sig ekki lengur þurfa að verja dýrmætum tíma sínum í átök um sameiginlega fjármuni ríkissjóðs.

Ég hef skipað sex manna nefnd undir forustu hjúkrunarforstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur til þess að gera tillögur í þessu máli. Ég ítreka það við alla nefndarmenn að þeir séu þar ekki sem fulltrúar einstakra stofnana heldur til að gæta hagsmuna sjúklinga og skattborgara. Þegar ég sé fyrirliggjandi skynsamlegar áætlanir um aukna verkaskiptingu, samstarf sem líklegar er til að skila árangri, mun ég beita mér fyrir því að ríkisstjórnin taki til meðferðar heildaráætlun um fjármögnun þessarar starfsemi þannig að friður geti ríkt um hana til lengri tíma. Ég bind miklar vonir við starf nefndarinnar og treysti því að hún komi sem fyrst með tillögur og helst um næstu mánaðamót.

Bæði Ríkisspítalar og Sjúkrahús Reykjavíkur komu út með nokkrum halla á rekstri ársins 1995. Að verulegum hluta hefur þeim verið bættur sá halli en mér er fyllilega ljóst að mjög erfitt verður fyrir sjúkrahúsin að uppfylla þær kröfur sem til þeirra eru gerðar á fjárlögum yfirstandandi árs. Stjórnendur sjúkrahúsanna hafa hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að ná markmiðum fjárlaga.

[14:00]

Við fjárlagagerðina nú í desember lagði ég á það áherslu í viðræðum við fjmrh. að reynt yrði að skipuleggja vinnuna við gerð kjarasamninga þannig að verkföll lömuðu ekki þessa viðkvæmu starfsemi stærstu heilbrigðisstofnana þjóðarinnar. Þó talað sé um mikinn samdrátt vegna lokana deilda hafa verkföll einnig dregið verulega úr starfsemi sjúkrahúsanna á undanförnum árum. Biðlistar eru langir. Þó hefur náðst verulegur árangur t.d. varðandi beinaaðgerðir og þvagfæraaðgerðir samkvæmt upplýsingum frá landlækni. Það er greypt í þjóðarsál Íslendinga að vist á sjúkrahúsi megi ekkert kosta sjúklinginn. Þannig hafnar þingflokkur minn þeirri leið að leggja innlagningargjöld á sjúklinga. Ekki er ólíklegt að sá þáttur þurfi að koma til skoðunar í framtíðinni. Það hlýtur að orka nokkuð tvímælis og tengist umræðu um samspil milli sjúkrahúsþjónustu, heilsugæslu og sérfræðinga að það skuli ekki vera samræmi í gjaldtöku einstaklinga eftir því hvar hann nýtur þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Einnig bendi ég á að hafin er vinna að endurskoðun almannatryggingalaga með það að leiðarljósi að þeir sem mest þurfa á almannatryggingum og samhjálp að halda fái þá aðstoð sem þeir þurfa.

Í síðustu viku fór fram málefnaleg utandagskrárumræða um uppsagnir flestra heilsugæslulækna landsins. Heilsugæslulæknarnir eru óánægðir með hlut heilsugæslunnar í heilbrigðisþjónustunni. Flestir hv. þm., sem tóku til máls, tóku að einhverju leyti undir þörfina á að efla heilsugæslu. Mikilvægi heilsugæslunnar er óumdeild, bæði hvað varðar almenna heilbrigðisþjónustu og forvarnir til frambúðar.

Ég hef bundið miklar vonir við að svæðisbundnar heilbrigðisstjórnir geti orðið til þess að fjármunum í heilbrigðisþjónustu verði ráðstafað með hagkvæmari hætti en nú er. Þá er hugmyndin sú að heilbrigðisstjórnir taki ákvarðanir um hvar og hvernig fjármunum fyrir íbúa viðkomandi svæðis sé best varið í heilbrigðisþjónustunni. Í dag eru þessar ákvarðanir í raun teknar af ríkisstjórn og Alþingi. Ég vil flyja þær til fagaðila á þeim svæðum sem heilbrigðisstjórnirnar eiga að sinna en þó þannig að byggt sé á stefnumörkun sem ákveðin er á Alþingi. Í mínum huga er svona breytingar hagræðing sem á ekki að þurfa að tengjst flokkspólitík.

Virðulegi forseti. Forvarnir skipta miklu máli hvað varðar útgjöld til heilbrigðismála. Sterkasta dæmið um gildi forvarna er að með öflugu fyrirbyggjandi starfi tókst að útrýma berklum. Ef okkur hefði á sama hátt tekist að koma í veg fyrir útbreiðslu reykinga um miðja öldina hefði vafalaust sparast óhemjufjármunir og fjöldi einstaklinga sloppið við alvarlega krabbameins-, lungna- og æðasjúkdóma. Það skiptir því miklu máli fyrir útgjöld í framtíðinni að okkur takist að stemma stigu við vandamálum sem skapast af óhollum lífsháttum. Næðum við að útrýma fíkniefnum eins og tókst með berkla yrði það mikilvægasta forvarna- og sparnaðaraðgerðin í heilbrigðismálum á þessari öld. Því má einskis láta ófreistað til varna gegn áfengis- og fíkniefnavandanum og hefur ríkisstjórnin og heilbrrn. brugðist við með samstillu átaki auk þeirra ráðuneyta sem koma að þeim málaflokki.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur um að efla starfsemi barna- og unglingageðdeildarinnar og þar geta foreldrar þeirra barna sem lenda í neyslu vímuefna leitað ráðgjafa. Ný staða barnalæknis á Akureyri var nýlega samþykkt. Þá er 30 millj. kr. forvarnasjóður vistaður í heilbrrn. og verður auglýst eftir umsóknum um styrki í næstu viku.

Virðulegi forseti. Við ræðum framtíð heilbrigðisþjónustunnar og velferðarkerfisins. Vinnum saman að því að finna framtíðarlausnir sem eru ekki einungis viðunandi heldur tryggja að við verðum áfram í hópi best settu þjóða heims hvað varðar heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfi. Horfum áratug fram í tímann, ekki einungis til eins árs í senn.

Ég vil að lokum fara örfáum orðum um þá jákvæðu þróun sem við sjáum. Á þessari stundu er verið að opna nýja hjartadeild á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og ég hefði viljað vera að samfagna starfsfólki þar. Fyrir skömmu var barnadeild á sömu stofnun og öldrunarlækningadeild opnuð. Bráðlega verður opnuð ný barnadeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Búið er að opna fullkomin og vistleg hjúkrunarheimili víða um land fyrir aldraða sem þurfa á mikilli umönnun að halda. Innvortis aðgerðir eru framkvæmdar án uppskurðar þannig að sjúklingurinn er jafnvel kominn til fullrar vinnu eftir þrjá daga frá aðgerð, sjúklingur, sem áður lá í hálfan mánuð á sjúkrahúsi. Hjarta- og æðaaðgerðir eru framkvæmdar í stórum stíl, að því er talið það mesta í heiminum miðað við mannfjölda. Legutími sjúklinga hefur styst með hverju árinu. Með lyfjagjöfum og læknisaðgerðum hefur okkur tekist að lækna sjúkdóma sem fyrir fáum árum leiddu til dauða.

Í ár verður tekið í notkun nýtt lyf fyrir MS-sjúklinga sem hefur lengi verið beðið eftir. Heilsugæsla og aðgengi að læknum og frumheilsuvernd er hér á landi með því besta, sumir segja besta sem gerist í heiminum. Mæðravernd og ungbarnaeftirlit er skipulagt og öruggt og hefur skilað lægsta ungbarnadauða í heimi.

Samkvæmt upplýsingum frá landlækni hefur sjúklingum fækkað á biðlistum á ýmsum sviðum, svo sem bæklunaraðgerðum, á háls-, nef- og eyrnadeildum, í þvagfæraskurðlækningum og í heildina fækkað á biðlistum á árinu 1995 um 1%.

Í máli mínu hef ég rakið stefnumótun sem unnið er að í heilbrrn. Um heildarstefnu í heilbrigðismálum sem fólgin er í heilbrigðisstjórnun í héraði. Samvinnu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík, forgangsröðun í heilbrigðismálum, bæði hvað varðar framkvæmdir og aðgerðir, endurskoðun almannatryggingalaga. Stóraukna áherslu á forvörnum með aukafjárveitingum til málaflokksins.

Hið jákvæða sem er m.a. að gerast um þessar mundir er að nýtt lyf fyrir MS-sjúklinga verður í fyrsta skipti reynt hérlendis á þessu ári. Hjartaskurðlækningar barna færast í auknum mæli heim. Markaðssetning heilbrigðisþjónustu erlendis er að skila sér. Grænlendingar kaupa þjónustu af okkur í enn ríkari mæli. Endurbætt glasafrjóvgunardeild verður opnuð í vor. Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði stefnir að rekstri heilsuskóla á þessu ári þar sem þeir sem vilja breyta um lífsstíl geta fengið kennslu auk þess sem þeir sem vilja hætta að reykja fá þar einnig aðstoð. Ríkisstjórnin samhæfir krafta sína gegn eiturlyfjavandamálinu.

Við verðum að treysta öruggan rekstrargrunn heilbrigðisþjónustunnar. Það verður ekki gert með því að auka skuldasöfnunina. Það verður gert með ráðdeild. Sú ráðdeild mun áfram skila okkur bestu heilbrigðisþjónustu og þeirri öruggustu sem völ er á.