Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:26:36 (2789)

1996-02-08 14:26:36# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að hér er um grundvallaratriði að ræða. Það sem ég var að ræða um var breyting sem mundi fylgja nýju kerfi sem verið er að gera tillögur að. Eins og hæstv. heilbrrh. gat um þá er það ósk hennar og vilji að fjármagnið verði flutt til héraðs og þar verði svæðisbundin héraðsstjórn. Eins og tillögurnar liggja nú fyrir þá er það ein stjórn í hverju kjördæmi. Og fjármagninu sem fer núna í þennan stóra pott heilbrigðisgeirans yrði skipt niður á þessar heilbrigðisstjórnir. Þannig liggur þetta fyrir núna. Það yrðu heilbrigðisstjórnirnar sem hefðu þessa peninga og það yrðu með öðrum orðum líka einhvers konar svæðisbundin sjúkrasamlög í hverju kjördæmi. Það yrði þá úr þeim pottum sem þetta fjármagn kæmi. Það er alveg ljóst að það kæmi frá héruðum en það er ekki hægt að segja eins og hv. þm. gat um áðan að það kæmi frá héraðssjúkrahúsunum heldur kæmi það úr sjóðum þessarar svæðisbundnu heilbrigðisstjórnar í hverju kjördæmi. Þetta er hugmyndin.