Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:31:45 (2793)

1996-02-08 14:31:45# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé með engu móti hægt að jafna tilvísunarkerfinu saman við kerfi sem við erum að ræða um núna. Hins vegar verður hæstv. heilbrrh. að gera sér grein fyrir að hún hefur sjálf sagt í fjölmiðlum að það að fjármagn fylgi sjúklingi eftir sé forsenda þess að þetta kerfi gangi upp. Henni hefur láðst að skipa sínum meiri hluta í nefndinni sem við erum að tala um, þannig til verka að hann skilji það.

Að því er varðar skyndilega áhuga minn á heilbrigðismálum þá er það nú svo að nornir kjósa mönnum örlög. Það hefur komið fram hjá hæstv. heilbrrh., í útvarpi og í upphafsorðum hennar ræðu að hún hefur látið ýmislegt gott af sér leiða í heilbrigðismálum. Af jákvæða listanum taldi hún m.a. upp að hún gerði mig að formanni heilbr.- og trn. Ég vil nú ekki rífast við hana um hvort það var hún eða Alþingi sem hafði vald til að gera það en ég reyni að vinna mín verk hvar sem mér er skipað til verka. Ég er formaður heilbr.- og trn. Það hefur kannski ekki farið fram hjá hæstv. heilbrrh. á þessum vetri. Það er einmitt þess vegna sem ég stend hér og held ræður um heilbrigðismál. Á fyrra kjörtímabili var ég í ríkisstjórn hálft kjörtímabilið og ekki í neinum nefndum. Mér var þar falinn ákveðinn málaflokkur sem ég reyndi að einbeita mér að. Þar áður var ég í sjútvn. og iðnn. og ræddi þess vegna aðallega um þau mál. Þetta skýrir hinn nýja áhuga minn á heilbrigðismálum sem vex því meir sem ég kynnist verkum hæstv. heilbrrh.