Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:33:28 (2794)

1996-02-08 14:33:28# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:33]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hér er komin allt önnur Ella, þar sem er hæstv. heilbrrh. Hins vegar lýsi ég yfir því að mér þykir það miður að hér er kominn allt annar Elli, þar sem er Össur Skarphéðinsson, hv. þm. Hann hvarf aftur til fortíðar í ræðu sinni og tók upp skylmingar eins og stundum vill brenna við, því miður, á hinu háa Alþingi.

Ég er viss um að sjúklingar og aðstandendur þeirra, starfslið í heilbrigðisþjónustunni og stór hluti þjóðarinnar væntir nokkurs af þeirri umræðu sem fer fram í dag um stefnumótun í þessum stóra málaflokki í, ég vil segja, stærsta hagsmunamáli okkar þjóðar og hvaða línur á að leggja. Fólk vonar að málefnaleg umræða og umfjöllun fari fram um þessi mál en ekki að menn taki það upp eins og hv. þm. gerði að gera sig sjálfviljugur að skylmingaþræli. Það er afar illt hlutskipti og við megum ekki, hv. þingmenn, haga okkur þannig. Hæstv. heilbrrh. nefndi það áðan að hún vildi hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum. Það er engin þörf á því að hafa uppi pólitískt skæklatog. Kosningar eru nýlega afstaðnar og það er engin ástæða til að við förum að viðhafa eitthvað annað en málefnalega umræðu. Ég hvet hv. þm. Össur Skarphéðinsson til að vera málefnalegur og nýta völd sín og áhrif sín sem formaður heilbrn. svo að við komum einhverjum að niðurstöðum sem eru upplýsandi og málefnalegar.