Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 15:10:59 (2800)

1996-02-08 15:10:59# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[15:10]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að það er nauðsynlegt að ræða þessi mál áfram og ég hvet til þess að fulltrúar flokkanna geri það í framhaldi af þessari umræðu hér í dag. Ég vil minna á að Íslendingar eru ung þjóð. Aldurssamsetningin er þannig að Hagfræðistofnun háskólans hefur áætlað að ef hún væri á sama aldri og nágrannaþjóðirnar væri kostnaðurinn 10--12% meiri en hann er í dag að óbreyttu. Þá værum við í efsta sæti hjá OECD. Ég vil einnig minna á að árið 1992 voru opinber útgjöld til heilbrigðismála það mikil hér á landi að við vorum í 5. sæti. Það hefur lítið breyst síðan. Það sem hefur hins vegar breyst hjá OECD og kemur skýrt fram í skýrslum OECD, ef menn nenna að fletta því upp, er að á undanförnum árum er nánast undantekningarlaust það að gerast hjá þessum þjóðum að sjúklingarnir eða heimilin taka aukinn þátt í útgjöldum vegna heilbrigðismála. Í skýrslu sem OECD gaf út og nær til 1992, það er ein nýjasta skýrslan, kemur þetta berlega í ljós þegar við sjáum að frá 1985 til 1992 hefur hlutur hins opinbera í heilbrigðisútgjöldum þjóða lækkað úr tæplega 80% í 74,3% að meðaltali í OECD. Hjá aðeins tveimur eða þremur þjóðum hefur þróunin verið öðruvísi. Það er kominn tími til að við viðurkennum þessar staðreyndir. Á síðustu árum, 1993, 1994 og 1995 hefur hlutur opinberra útgjalda í heildarútgjöldum til heilbrigðismála heldur aukist ef eitthvað er. Þetta eru staðreyndir málsins eftir því sem kemur fram hjá Þjóðhagsstofnun, skýrt og greinilega. Þetta er sú þróun sem hefur átt sér stað og af hverju á hún sér stað? Það er vegna þess að menn skilja að til þess að geta haldið úti þjónustu fyrir alla verðum við að finna nýjar leiðir til fjármögnunar. Og það er ekkert rangt við það að fólk fái að borga fyrir það að ná betri heilsu. Það er ekkert siðferðilega rangt við það. Þar með er ekki verið að segja að það eigi að skera niður opinber útgjöld á móti. Það er misskilningur.