Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 15:15:29 (2802)

1996-02-08 15:15:29# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[15:15]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sem lauk máli sínu talaði eins og það væri regla hér á landi að einstaklingarnir greiddu beint fyrir sína þjónustu. Staðreyndin er auðvitað sú að það eru u.þ.b. 85% af útgjöldum til heilbrigðismála sem koma í gegnum skattfé almennings. Og enginn hefur mótmælt því að svo eigi að vera áfram. Það sem verið er að tala um hér er hvernig eigi að leysa hina nýju þörf sem blasir við. Það kemur nefnilega í ljós að Ísland er í 4.--5. sæti hvað snertir opinber útgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála.

Það sem við erum að tala um til viðbótar er það hvort við eigum að fara að eins og aðrar vestrænar þjóðir og fá viðbótarfjármagn frá þeim sem njóta þjónustunnar eða hvort við eigum að láta okkur hafa það að láta fjármagnið sífellt fara minnkandi þannig að fæstir geti notið þjónustunnar. Ég segi og ég hika ekki við að segja það hér og nú að mér finnst siðferðilega rangt að leyfa ekki því fólki sem vill fá þjónustu að borga fyrir hana, því fólki sem hefur efni á því og getur fengið þessa þjónustu annars staðar. Og ég hef ekkert á móti því að útlendingar komi hingað og borgi að fullu fyrir sína þjónustu vegna þess að ég er sannfærður um að sama lögmál gildir hér á landi og í nágrannalöndunum. Með því að fá viðbótarfjármagn til þessara mál getum við veitt betri þjónustu fyrir fleira fólk. Það er þetta atriði sem þarf að koma skýrt fram og ég vonast til að fulltrúi ríkisstarfsmanna, hv. þm. Ögmundur Jónasson, skilji þetta og virði ef hann vill fara sömu leið og vestrænar þjóðir hafa farið að undanförnu, en ekki þá leið sem kannski var bundin í einhverjum löndum sem honum voru kærari fyrr á árum.