Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 15:17:43 (2803)

1996-02-08 15:17:43# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[15:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við verðum að fá nánari skýringar frá hæstv. fjmrh. um þær hugmyndir sem hann hefur um hvaða lönd séu mér kær og hver ekki. Ég vildi hins vegar leiðrétta hæstv. fjmrh. og benda honum á að samkvæmt þeim gögnum sem verið er að birta þessa dagana hafa menn ekki verið að afla viðbótarfjármagns. Framlag íslensku þjóðarinnar núna og fyrir fáeinum árum er mjög svipað. En kostnaðardeilingin, kostnaðarskiptingin er ólík. Nú er stærra hlutfall sótt ofan í vasa sjúklingsins, notanda þjónustunnar, en áður var. Það er þetta sem hefur breyst. Og ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það væri siðferðilega rangt af hans hálfu að gera ekki hreint fyrir sínum dyrum. Hæstv. ráðherra hefur gert hreint fyrir sínum dyrum. Hann hefur komið til dyranna eins og hann er klæddur. Hann hefur sagt okkur það hér að hann vilji fara að dæmi ýmissa erlendra manna og sækja peninga ofan í vasa sjúklinganna. Það er ekki bara hér á landi sem tekist er á um þessa stefnu. Sums staðar hafa menn meira að segja náð þeim árangri að knýja hana í gegn. Ég nefni t.d. Nýja-Sjáland. Ég nefni t.d. Bretland þar sem menn hafa nærri því rústað velferðar- og heilbrigðisþjónustuna.

Ég vitnaði hins vegar áðan í skýrslur frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, þar sem úttekt hafði verið gerð af hálfu stofnunarinnar á íslenska heilbrigðiskerfinu. Þar fékk okkar kerfi mjög góða einkunn og ég er að vara við því að gerð verði uppstokkun í þá átt sem hæstv. fjmrh. hefur boðað. Ég vara við þeim ráðum sem hann er núna að boða og sækja í allar helstu mistakasmiðjur heimsins. Hann hefur flutt sérfræðinga, sérstaka lærimóður sína alla leið frá Nýja-Sjálandi, til að kenna okkur hvernig eigi að einkavæða, hvernig eigi að gefa og selja sameignir þjóðarinnar.