Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 15:39:40 (2808)

1996-02-08 15:39:40# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[15:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég bendi hæstv. ráðherra á að sá hópur sem nú er að fá skírteini í Tryggingastofnun var með lægstu greiðslur fyrir þjónustuna áður en lögunum var breytt um áramótin, borgaði sama gjald og öryrkjar og þeir sem nú eru yfir sjötugu. Það er verið að auka álögurnar á þennan hóp.

Varðandi styrkina til hreyfihamlaðra gat ég ekki um hærri styrkina vegna þess að þeir 50 styrkir sem ætlaðir voru þeim sem bundnir voru við hjólastóla og eru mjög mikið fatlaðir voru sem betur ekki skertir. Sem betur fer voru þeir ekki skornir niður því að það væri fulllangt til gengið ef ætti að fara að skera þá niður. Aftur á móti eru margir af þeim sem sækja um lægri styrkina, sem eru 235 þús. kr., líka bundnir í hjólastólum. Nú geta aðeins 335 fengið þann styrk í staðinn fyrir 600 manns undanfarin ár og það kalla ég verulega skerðingu til þessa hóps. Ég minntist ekki á tekjutengingu varðandi þetta en það er reyndin ef menn skoða tekjur öryrkja þá eru þeir með þeim tekjulægstu í samfélaginu enda eru þeir fjórðungur þeirra sem fá styrk frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, lífeyrisþegar, þannig að þarna er ekki um neinn hátekjuhóp að ræða þó svo að ríkisstjórnin haldi að unnt sé að sækja fjármagn í vasa þeirra.