Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 15:44:22 (2811)

1996-02-08 15:44:22# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[15:44]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að fagna sérstaklega því sem kom fram í máli hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur áðan þar sem hún gagnrýndi ekki að fjármagnstekjur skyldu skerða lífeyri. Ekki var lítið ramakvein úti í þjóðfélaginu þegar það var ákveðið að það mætti skerði lífeyri hjá því fólki hefði talsvert fé milli handanna. Það er mjög ánægjulegt að hv. þm. skuli ekki gagnrýna þá leið sem valin var af því að það var ekki lítið sem gekk á í þjóðfélaginu þegar það var ákveðið.

[15:45]

Ég vil hins vegar harma að hv. þm. skuli draga það sérstaklega ósmekklega fram að hæstv. heilbrrh. er kona og það sé verið að etja einu konunni á foraðið. Til hvers er verið að draga það fram að hæstv. ráðherra er kona? Er verið að reyna að níða skóinn af hæstv. ráðherra af því að hún er kona? Það væri þá nær að það væru aðrir en við konur sem gerðum það. Það sem hæstv. ráðherra er að gera er að reyna að verja velferðarkerfið, þ.e. að nýta fjármagnið á skynsamlegri hátt. Það er ekki hægt að ganga áfram á þeirri skuldabraut sem gengin hefur verið. Þá hrynur velferðarkerfið og það held ég að við ættum að gera okkur grein fyrir.

Það var einnig mjög athyglisvert að hv. þm. skyldi mælast til þess að hæstv. heilbrrh. skyldi feta í fótspor síðustu konunnar í ríkisstjórninni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég bara spyr: Bar ekki sú kona ábyrgð á þeirri stefnu sem var framfylgt í þeirri ríkisstjórn? Var ekkert aðhald þá? Sú kona fór reyndar úr ríkisstjórninni vegna ágreinings við sinn formann. Í dag situr hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir í flokki Þjóðvaka undir forustu þessarar konu þannig að ég lýsi furðu minni á því að hún hafi látið þessi orð falla áðan.