Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 15:46:57 (2812)

1996-02-08 15:46:57# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[15:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það hrósyrði að vera kona og ég vil taka það fram að í þingflokki Þjóðvaka eru 3/4 flokksins konur, þrjár konur og einn karlmaður. Mér finnst það vera hið ágætasta mál. En ég vil minna á það að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir barðist fyrir réttindum lítilmagnans þegar hún var ráðherra í ríkisstjórn og sérstaklega málefnum fatlaðra.

Varðandi fjármagnstekjuskattinn þá kom það mjög skýrt fram í fjárlagaumræðunni að ég hef ekki talið það neitt óréttlæti að fjármagnstekjur skerði lífeyrisgreiðslur. Aftur á móti gagnrýndi ég að það væri fyrst byrjað að láta fjármagnstekjur gilda til skerðingar eða óbeinan skatt þegar lífeyrisþegar voru annars vegar. Sú gagnrýni mín stendur. Ég tel rétt að það sé tekið tillit til þeirra tekna eins og annarra tekna með undantekningunni sem ég nefndi áðan í ræðu minni, þ.e. þeir sem hafa lent í slysum, fengið eingreiðslur og þurfa að ávaxta það fé til framfærslu út ævina. Þær fjármagnstekjur eiga ekki að skerða lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun.