Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 15:50:02 (2815)

1996-02-08 15:50:02# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[15:50]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar rætt er um heilbrigðiskerfið í landinu og stefnu stjórnvalda í þeim málaflokki er rétt að undirstrika það megin markmið okkar Íslendinga að allir eigi kost á heilbrigðisþjónustu án tillits til stéttar eða efnahags. Ég veit ekki annað en að um þetta sé bærileg pólitísk samstaða hérlendis en hins vegar eru skiptar skoðanir um hvernig þetta markmið verði uppfyllt, hvern hlut notendur heilbrigðisþjónustunnar eiga að greiða í þessum málaflokki eða hvort þeir eigi yfir höfuð að greiða nokkuð og hvert hlutfall útgjalda hins opinbera til málaflokksins eigi að vera.

Á undanförnum áratugum hefur, eins og komið hefur fram við þessa umræðu, verið byggð upp mjög góð heilbrigðisþjónusta í landinu. Við Íslendingar eigum færu starfsfólki á að skipa á þessu sviði. Miklum fjármunum hefur verið varið til þessarar uppbyggingar hvort sem heldur er byggingu mannvirkja eða tækjabúnaðar. Heilbrigðisþjónustan byggist ekki síst á þeim störfum sem heilbrigðisstéttirnar vinna og þær vinna vel. Hins vegar er launakostnaður þeirra langstærsti hlutinn af þeim útgjöldum sem til þessa málaflokks fara þrátt fyrir hátæknibúnað og fjárfestingar í byggingum sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og dvalarheimila. Heilbrigðisþjónustan er hluti af velferðarkerfi okkar ásamt tryggingarkerfinu sem gjarnan er nefnt í sama orðinu enda heyra þessir málaflokkar undir sama ráðuneyti. Heilbrigðisþjónustan er viðkvæmur málaflokkur eðli málsins samkvæmt. Notendur hennar eru sjúklingar, misjafnlega illa á sig komnir og það er auðvelt að tala um þennan málaflokk á nótum tilfinninganna eða með gífuryrðum eins og hv. síðasti ræðumaður gerði um að það væri verið að níðast á lítilmagnanum í þjóðfélaginu.

Hins vegar verðum við Íslendingar nauðugir viljugir að ræða um útgjöld til þessa málaflokks í tengslum við önnur markmið sem við setjum okkur án þess að missa sjónar á markmiðinu, sem ég nefndi í upphafi um að allir eigi kost á því að leita þjónustunnar og engum þjóðfélagsþegn sé meinað þess. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir stóðu frammi fyrir því verkefni s.l. vor, þegar undirbúningur að gerð fjárlaga fyrir árið 1996 hófst, að stemma stigu við þeirri aukningu sem fyrirsjáanleg var á yfirstandandi ári í opinberum útgjöldum. Ástæðan er augljós, staðreyndir sem ríkisreikningur árið 1994 sýnir segja meira um þörfina á þessu en mörg orð. Halli ríkissjóðs á fimm ára tímabili er um 73 milljarðar kr. og skuldir ríkisins nema orðið skatttekjum tveggja ára. Álíka sigling og þetta til aldamóta myndi þýða að öll markmið um þjónustu í velferðarkerfinu, í heilbrigðis-, trygginga-, félags- og menntamálum væru í hættu. Það er grundvallaratriði í öllum umræðum um þetta mál að gera sér heildarmyndina ljósa.

Til að snúa við af þessari braut eru ekki nema tvær leiðir. Reyna að halda utan um útgjöld á öllum sviðum eða hækka skattheimtuna í landinu á einstaklingum og fyrirtækjum. Skattheimtan þykir ærin og bæði einstaklingar og fyrirtæki eiga fullt í fangi með, annars vegar að halda sér á floti í heimi hörkusamkeppni eða láta enda ná saman í lífsbaráttunni. Þess vegna var reyndu menn að sníða sér þröngan stakk í fjárlagagerðinni, þó ekki þrengri en svo að enn er áætlað að ríkissjóður verði með 4 milljarða kr. halla og útgjöld ríkissjóðs aukast á milli ára. Það má segja sem svo: Hvers vegna þarf að taka heilbrigðiskerfið með þegar ákveðið er að stemma stigu við aukningu útgjalda? Og hefði ekki mátt skipa því í frekari forgang heldur en gert er? Það er rétt og skylt að velta þessari spurningu fyrir sér.

Útgjöld heilbr.- og trmrn. samkvæmt fjárlögum 1996 sem falla undir þennan málaflokk eru 52,5 milljarðar kr. Innheimta á sértekjur á ýmsum sviðum, með öðrum orðum, þáttur notenda sem hér hefur komið til umræðu, er 2,5 milljarðar kr. svo nettóútgjöld til málaflokksins er um 50 milljarðar, eins og komið hefur fram. Þar af er kostnaður við tryggingakerfi landsmanna um 29 milljarðar kr. Menntamálin eða undir menntmrn. falla útgjöld upp á 19,2 milljarða og félmrn. 8,9 milljarðar. Þessi þrjú ráðuneyti eru því með útgjöld upp á um 88 milljarða kr. af heildarútgjöldum, um 124 milljarða. Þar að auki er samgrn. sem margir bera fyrir brjósti með útgjöld upp á 8,2 milljarða kr. Ég nefni þessi fjögur ráðuneyti sérstaklega af því að við umræður um fjárlög ársins 1996 á Alþingi kom berlega í ljós í ræðum stjórnarandstöðunnar að þingmenn sem þar töluðu nefndu alla þessa málaflokka sem forgangsverkefni í ríkisútgjöldum og væri í raun óhæfa að snerta við nokkrum þeirra. Ég er sammála þeim um mikilvægi verkefna sem undir þessi fjögur ráðuneyti heyra. Og undir þau ráðuneyti sem ekki eru nefnd hér heyrir ýmis þjónusta sem telja má til grundvallarþátta samfélagsins, svo sem dómsmál og löggæsla sem þykir bera skarðan hlut frá borði. Ég nefni þetta vegna þess að tölur um útgjöld sýna ljóslega að ekki varð komist hjá því að stemma við stigu við útgjaldaaukningu í menntamálum, félagsmálum, heilbrigðis- og tryggingamálum og samgöngumálum ef markmið fjárlaga um 4 milljarða kr. halla á að nást. Þar að auki liggur fyrir það markmið stjórnarflokkanna að ná hallalausum ríkisrekstri árið 1997.

Heilbr.- og trmrh. fékk það erfiða verkefni að fella sinn málaflokk inn í þann fjárlagaramma sem ákveðinn var og ná niður fyrirsjáanlegri útgjaldaaukningu sem hefði getað numið allt að 3 milljörðum kr. Það er spurt um stefnumótun í heilbrigðismálum í þessari umræðu. Stefnan liggur fyrir og hefur komið fram í þeim áherslum sem hæstv. ráðherra hefur lagt í starfi sínu.

Í fyrsta lagi hefur verið lögð áhersla á forvarnir í heilbrigðisþjónustunni. Það er markmið til langs tíma sem skilar sér ekki í lækkun útgjalda yfirstandandi árs eða á næsta ári. Sú vinna er gull í lófa framtíðarinnar.

Í öðru lagi er ráðherrann að láta vinna tillögur um breytta yfirstjórn heilbrigðismála í því skyni að styrkja stjórnskipulag málaflokksins og stjórnir heilbrigðisstofnana og auka samvinnu heilbrigðisstofnana í kjördæmum landsins.

Í þriðja lagi hefur verið lögð áhersla á aukna samvinnu og bætta nýtingu fjármuna sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu.

Í fjórða lagi hefur verið hægt á ferðinni í uppbyggingu heilbrigðismannvirkja í þeim tilgangi að fá tóm til að fara yfir þann rekstur sem nú er rekinn í þessum stofnunum, sjá þeim farborða og endurmeta þörfina þannig að áframhaldandi fjárfestingar í steinsteypu nýtist heilbrigðiskerfinu sem best.

Í umræðum um heilbrigðismál eftir áramótin eru það einkum stóru sjúkrahúsin í Reykjavík, Ríkisspítalar og Sjúkrahús Reykjavíkur sem eru í sviðsljósinu vegna erfiðleika á því að fella starfsemina að þeim fjárlagaramma sem þeim er áskilinn. Starfsemi þessara heilbrigðisstofnana er mikil að vöxtum. Útgjöld vegna starfsemi Ríkisspítalanna samkvæmt fjárlögum eru 6,9 milljarðar kr. og vegna Sjúkrahúss Reykjavíkur um 3,9 milljarðar. Mörg undanfarin ár hefur þessum stofnunum gengið illa að halda sig innan fjárlagaramma í rekstrinum og hefur hann verið viðfangsefni fjáraukalaga á undanförnum árum. Fyrir þessum erfiðleikum eru skiljanlegar ástæður. Þessi sjúkrahús eru endastöðvar í heilbrigðiskerfi landsins. Þau eru hátæknisjúkrahús með dýrustu aðgerðirnar og nýjungar í aðgerðum og fá til meðferðar erfiðustu sjúkdómstilfellin. Einmitt þess vegna er mikil nauðsyn á að þjónusta þeirra sé vel skilgreind og samvinna þeirra sé sem best. Erlendir sérfræðingar sem árið 1991 skoðuðu rekstur Ríkisspítalanna, skiluðu um hann skýrslu. Álit þeirra var að þjóðfélag af þessari stærð hefði ekki burði til að reka nema eitt hátæknisjúkrahús. Það varð ekki raunin að sameina sjúkrahúsin. Önnur leið var farin. Mér er fullljóst að það er ekki samkomulag um það nú að fara þá leið að sameina sjúkrahúsin. Það breytir því þó ekki að samvinna milli þeirra þarf að vera sem best og náin og það er nauðsynlegt að nýta það fjármagn sem allra best sem til þeirra fer. Einnig þarf verkaskipting í heilbrigðisþjónustunni á landsvísu að vera í miklu fastmótaðri skorðum en nú er.

[16:00]

Ríkisendurskoðun hefur í gegnum tíðina safnað miklum upplýsingum um rekstur sjúkrahúsanna í landinu og nú liggja fyrir samanburðarhæfar tölur um sjúkrahús utan Reykjavíkur frá rekstri stofnunarinnar sem hún er að vinna úr nánari upplýsingar. Okkur í fjárln. er kunnugt um að Ríkisendurskoðun er nú að líta á rekstur Sjúkrahúss Reykjavíkur að beiðni heilbrrn. og þær upplýsingar sem þar fást munu koma að gagni við að meta enn frekar fjárþörf þessarar mikilvægu stofnunar.

Ein af forsendum fjárframlaga til stóru sjúkrahúsanna var sú að samvinna og hagræðing í rekstri þeirra skilaði sparnaði. Það er fullljóst að Alþingi verður að fylgast með hvernig þeirri vinnu miðar fram og meta árangurinn af því. Fjárln. mun gera það fyrir sína parta.

Umræður um heilbrigðismál eru ekki alltaf yfirvegaðar eða á þeim nótum sem líklegar eru til árangurs. Stjórnmálamenn fá sinn skammt af ásökunum um skilningsleysi og hörku í garð þeirra sem minna mega sín. Þær ásakanir eru oftar en ekki og jafnvel í flestum tilfellum óréttmætar. Ég held að allir stjórnmálamenn vilji greiða götu þeirra sem minna mega sín í heilbrigðiskerfinu en þar er deilt um leiðir og hvernig eigi að standa undir kostnaði. Sem dæmi um á hvaða nótum þessar umræður geta orðið get ég ekki stillt mig um að vitna í ummæli formanns sérfræðinga í læknastétt sem segir í útvarpsviðtali þann 1. febrúar eftirfarandi, m.a. um vinnu fjárln. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Þetta er stærsti útgjaldaliður þjóðarinnar, þetta er stærsti málaflokkurinn. Þetta er sá málaflokkur sem allir koma til þegar vantar peninga og segja: Við hljótum að geta skorið niður hér og skorið niður þar. Í fjárln. Alþingis sitja 10--11 utanbæjarmenn þannig að höfuðborgarsvæðið, stóru sjúkrahúsin og Háskóli Íslands fara að mínu mati mjög varhluta.`` Enn fremur segir hann, með leyfi forseta: ,,En guð minn almáttugur, lítum á það sem er að gerast á spítölunum. Það er verið að taka þá í spað, það er verið að skera þá niður ár eftir ár. Það er alltaf sagt: Nú er þetta í síðasta skiptið. Ef þið getið sparað þetta, þá verður ekki skorið niður meir. Svo koma þeir aftur næsta ár, þessir sömu menn, á jólaföstunni og skera niður óvægilega, gera gys að stjórnendum spítalanna sem koma inn og flytja mál sitt til að verja spítalana og sjúklingana sem þangað leita. Og það er bara hreinlega gert grín að þessum mönnum.``

Þegar umræður um heilbrigðismál fara á slíkt plan, er ekki von á góðu. Staðreyndirnar eru á skjön við þær ef litið er á fjárlagatölur undanfarinna ára. Ef fjárveitingar til sjúkrahúsanna eru teknar saman voru fjárveitingar til landsbyggðarsjúkrahúsanna árið 1990 29,67% af heildarpakkanum, en árið 1996 er þessi tala 29,07%. Á sama tíma er þetta hlutfall fyrir höfuðborgarsvæðið 70,93% árið 1996 á móti 70,33% árið 1990. Heilbrigðismálin verða ekki færð til betri vegar með sleggjudómum í garð stjórnmálamanna eða skeytasendingum heilbrigðisstétta í fjölmiðlum og staðhæfingum um að ætíð sé ætlunin að níðast á þeim sem minna mega sín. Þau verða því aðeins leyst að allir leggist á eitt að skilgreina sem best þjónustuna, hver hlutur ríkisvaldsins á að vera og hvað sé eðlilegt að notendur greiði til að markmiðið um gott heilbrigðiskerfi og aðgengilegt fyrir alla sé áfram haft í heiðri.