Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:09:43 (2818)

1996-02-08 16:09:43# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rangt hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni að útgjöld Ríkisspítalanna eða útgjöld spítalanna hafi aukist ef horft er nokkur ár aftur í tímann. Ég tel ekki að hv. þm. Jón Kristjánsson eða nokkur í ríkisstjórninni vilji sérstaklega níðast á öldruðu fólki eða sjúklingum. Það er ekki um það að ræða. Hins vegar er verið að tala um hvað stóð á bak við þau orð sem féllu í hita kosningabaráttunnar. Hvað var á bak við það þegar hv. þm. Jón Kristjánsson lagði fram stefnu með forustu Framsfl. þar sem því er bókstafega lofað að það verði snúið af þeirri braut að loka deildum? Þegar upp er staðið hefur hv. þm. rétt upp hönd og samþykkt tillögur sem gera það að verkum að lokanir hafa aldrei verið meiri en nú. Þegar hv. þm. kemur hingað og segir að halli ríkissjóðs sé svo alvarlegur að það þurfi að grípa til þessara ráða, get ég efnislega verið honum sammála. Munurinn á mér og honum er hins vegar sá að ég blekkti ekki kjósendur fyrir kosningar. Ég sagðist vera fylgjandi þjónustugjöldum og ég sagði að það væri e.t.v. nauðsynlegt á vissum sviðum að auka þau.

Hv. þm. og öll hans hjörð kom hins vegar og sagði að þeir ætluðu að afnema þjónustugjöldin. Öðruvísi er ekki hægt að skilja þennan texta sem þeir sendu öllum borgurum í Reykjavík, 67 ára og eldri. Hv. þm. kemur og talar um forvarnir. Minnisleysi virðist nú útbreitt meðal framsóknarmanna. Hvernig er best að forverja þá gegn því? Kannski með því að fá menn eins og mig til að lesa kvölds og morgna það sem þessir ágætu herrar sögðu fyrir kosningar. Ég skal gera það ókeypis fyrir minn ágæta samþingmann, hv. ritstjóra Tímans, Jón Kristjánsson.