Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:01:28 (2832)

1996-02-08 17:01:28# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:01]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel út af fyrir sig að í þessum málum séu ekki til neinar endanlegar réttar kennisetningar. Ég held þó að aðferðin sem beitt hefur verið hafi ýtt undir það að aðrir ráðherrar líti á t.d. þennan málaflokk eins og hann komi þeim ekki við. Og ég get ímyndað mér að það yrði fátt um svör hjá hæstv. samgrh., með fullri virðingu fyrir honum, ef við reyndum að taka hann upp í einstökum þáttum heilbrigðiskerfisins. Ég held að málið sé nefnilega ekki þannig að fagráðherrar annarra ráðuneyta líti þannig á að þeir beri skyldur í þessum efnum eins og þeir þurfa að gera.

Að lokum þetta, hæstv. forseti, sem er andsvar við ræðu hv. þm. Mér fannst örla á því að hann væri að ýta undir óheppilegan meting á milli dreifbýlis og þéttbýlis í ræðu sinni vegna þess að það er ekki hægt að bera sjúkrahúsin í dreifbýlinu saman við þéttbýlissjúkrahúsin með þeim hætti sem hann gerði, einfaldlega vegna þess að þjónustan er mismunandi. Ég skora á hann sem forustumann í ríkisfjármálum að setja dæmið ekki upp eins og hann gerði hér áðan vegna þess að það er óheppilegt fyrir heilbrigðiskerfið að standa frammi fyrir slíkum orðum.