Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:02:46 (2833)

1996-02-08 17:02:46# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:02]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um óheppilegan meting. Ræða mín, sem hann var e.t.v. að vitna til, snerist um það að ég var að verja okkur þingmenn fyrir óheppilegum aðfinnslum og ósanngjörnum yfirlýsingum forsvarsmanna heilbrigðisstétta. Það var nú ekki meiri sókn sem fólst í því heldur var þetta fyrst og fremst vörn. Ég færði fyrir því rök hver afstaða mín væri til þess.

Hvað varðar rammafjárlög, þá vil ég segja það að þó að heilbrigðismálin, tryggingamálin og velferðarmálin séu mikilvæg þá megum við ekki gleyma því að við erum að byggja hér upp þjóðfélag og ef við leggjum einungis áherslu á einn þátt þeirrar uppbyggingar þá vegnar okkur ekki vel í þessu landi. Við verðum að fjárfesta í atvinnulífinu, fjárfesta í samgöngum, hinu innra skipulagi þjóðfélagsins og það bætir möguleikana á að sinna góðri heilbrigðisþjónustu, m.a. með uppbyggingu vegakerfis og góðu samgöngukerfi þannig að allt styður þetta hvað annað og það verðum við þingmenn að muna.