Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:32:40 (2842)

1996-02-08 17:32:40# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. Alþingi komist seint hjá því að deila út þessu fjármagni. Svo ég fari enn frekar út vangaveltur mínar um Norðurl. v. Auðvitað er það þannig að forsvarsmenn þeirra þriggja sjúkrahúsa sem þar er að finna sækja hingað til alþingismanna og til ráðuneytis og munu vitaskuld gera það eftir sem áður hvað sem líður einhverri miðstýrðri kjördæmastjórn í Norðurl. v. Ég held að við stjórnmálamenn getum ekki hlaupið undan þeirri ábyrgð sem hvílir á okkur að taka um það ákvörðun hvernig þessum fjármunum skuli skipt. Við köstum því ekkert af okkur til einhverra miðstýrðra kjördæmastjórna. Hins vegar sé ég möguleika á betri nýtingu ef við beinum þessum fjármunum beint til sveitarfélaganna, og þá er ég að tala um sameinaðra og stærri eininga sem sveitarfélögin eiga að verða. Ég vil hreinlega sjá með lagabreytingu heilsugæslustöðvarnar fara heim í hérað og að eðlilegir tekjustofnar fylgi þannig að við þurfum ekkert að vera að sýsla með þetta. Þá veit ég að við mundum bæta þjónustu og spara peninga. Við skulum ganga skrefið til fulls.