Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:36:52 (2844)

1996-02-08 17:36:52# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það. Ég treysti einmitt heimamönnum býsna vel til að vinna vel úr þeim fjármunum sem þeir hafa handa á milli. Einmitt þess vegna sé ég ekki nokkra ástæðu fyrir þessu milliskrefi, fyrir þessum gamla draum Framsfl. um þriðja stjórnsýslustigið. Hvernig skyldi það nú verða, hv. þm. Stefán Guðmundsson, þegar kosin verður fimm manna stjórn í Norðurl. v.? Spítalarnir eru þrír. Það þyrfti að gaumgæfa það vel. Einhver þarf að vera úr Húnaþingi til þess að gæta hagsmuna Blönduóss, einhver þyrfti að vera frá Siglufirði til að passa upp á það bæjarfélag og væntanlega neitar hv. þm. því ekki að Skagafjörður þyrfti að eiga fulltrúa. Þá eru tveir eftir. Það verður þrautin þyngri að finna þá hlutlægu menn sem úr því gætu skorið. Af hverju erum við að vandræðast með þetta millistig? Af hverju stígum við ekki skrefið til fulls eins og ég gat um hér áðan og förum alla leið eins og við alþýðuflokksmenn höfum lagt til og endurspeglast í lögum um reynslusveitarfélög. Að við tökum fyrsta skrefið með því að heilsugæslan fari heim í hérað, sveitarfélögin taki þær, reki þær og fái tekjustofna til þess. Það er bragð að slíkri stjórnkerfisbreytingu. Þetta er húmbúkk.