Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 18:07:06 (2849)

1996-02-08 18:07:06# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[18:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gerði mér að vísu grein fyrir því að Seltjarnarnesið er lítið og lágt. En að veruleikinn væri svona allt öðruvísi þar en hjá okkur hinum vissi ég ekki áður. Mig rak í rogastans þegar ég heyrði hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem situr í heilbr.- og trn., segja efnislega að það væri algerlega nauðsynlegt að endurskoða fyrirkomulag heilbrigðiskerfisins, ella mundi velferðarkerfið hrynja á komandi árum. Við drögum þá ályktun af þessu að það sé kostnaðurinn vegna heilbrigðiskerfisins sem hafi valdið þessum skaðlega halla ríkissjóðs. Í hvaða veruleika lifir hv. þm. Siv Friðleifsdóttir? Hefur hún einhvern tíma heyrt talað um 12 milljarða sem er verið að sóa í landbúnaðinn á næstu árum? Hverjir hafa talað fyrir því? Er það ekki Framsfl.? Menn eru að tala um forgang og hún hafði langt mál og snjallt um það að við þyrftum að forgangsraða. Auðvitað þurfum við að forgangsraða innan heilbrigðiskerfisins. En við þyrftum kannski að forgangsraða innan ríkiskerfisins alls. Og heyra ungan þingmann koma hingað og tala um það að endurskoðun á fyrirkomulagi heilbrigðiskerfisins sé forsenda þess að velferðarkerfið standist áhlaup komandi tíma er auðvitað tómt rugl. Ég verð að segja það, herra forseti.

Ég velti því fyrir mér af því að menn hafa rætt þessa nefnd sem er að stokka upp stofnanakerfi heilbrigðiskerfisins, hvað það er í rauninni sem kallar á það. Er þetta kerfi sem við búum nú við ekki bara nokkuð gott? Mér finnst sem neytanda þessarar þjónustu að kerfið sé mjög gott. Og þar sem ég þekki til erlendis og bjó einu sinni í öðru landi, þá er gríðarlegur munur þar á milli. (Gripið fram í: Hvað er þá að?) Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sem kom fram í máli hv. þm. um hagræðið af því að sameina Borgarspítalann og Landakot, sparnaður upp á milljarð, sagði hún, er nú ekki áfellisdómur yfir fyrri ríkisstjórn. Það sýnir og sannar það, herra forseti, sem ég sagði fyrr í dag að mér sýnist sem hæstv. heilbrrh. sé ekki að gera mikið annað en fylgja fram stefnu forvera síns í starfi, nema hvað hún er að skrúfa aðhaldsskrúfurnar svolítið fastar en hann.