Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 18:09:30 (2850)

1996-02-08 18:09:30# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[18:09]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hvar er veruleikaskyn hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar? (SvG: Þetta er mjög góð spurning, hv. þm.) Já, hv. þm. Svavar Gestsson. Þetta er mjög góð spurning. --- Hvar er veruleikaskynið? Hv. þm. veit það að 40% af útgjöldum ríkisins eru til heilbrigðis- og tryggingamála. Er ekki svo? 40% af útgjöldum ríkisins. Það er líka vitað að skuldabyrðin er að sliga okkur. Við erum að greiða 13 milljarða kr. í vexti, 10% af útgjöldum ríkisins fara í vexti. Er það ásættanlegt? Nei. Það þarf að hagræða alls staðar, m.a. í heilbrigðiskerfinu, annars staðar líka.

Það var verið að ,,blammera`` á Framsfl. vegna landbúnaðarmála. Hvernig var það í tíð síðustu ríkisstjórnar? Fór ekki meira fjármagn þá til landbúnaðarmála heldur en nú? Hver var þá í ríkisstjórn nema hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (Gripið fram í.) Barst þú, hv. þm., enga ábyrgð þá á því? Það er einmitt verið að draga í land þar, draga saman. En ég vil hins vegar segja að það var gott hjá ykkur alþýðuflokksmönnum að standa að því að sameina Borgarspítalann og Landakot. Til hamingju með það. Það var afskaplega gott og við erum núna að uppskera af þeirri framkvæmd. Ég vildi hins vegar sjá miklu meiri samvinnu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna en er nú. Það var það sem ég ræddi um í minni ræðu hér og ég heyri að hv. þm. tekur undir það og það ber að fagna því.