Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 18:19:37 (2857)

1996-02-08 18:19:37# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[18:19]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja að ég deili í mjög mörgum atriðum þeim áhyggjum sem fram hafa komið hjá ræðumönnum í dag af því hvernig staðan er í heilbrigðiskerfi okkar. En því miður finnst mér að þeir, eða a.m.k. margir þeirra, deili ekki með mér þeim áhyggjum sem ég hef af ríkisfjármálunum og þykir mér það miður. Á því eru þó undantekningar eins og kom fram í umræðum hér rétt á undan.

Þegar við höfum unnið að fjárlögum og tillögugerðum fyrir þingið um það hvernig skipta eigi fjármunum í heilbrigðiskerfinu, hefur eitt vandamálið og jafnvel eitt aðalvandamálið verið ófullnægjandi upplýsingar um kostnað innan þess eins og t.d. upplýsingar um kostnað einstakra aðgerða eða legukostnað vegna tiltekinnar starfsemi. Auðvitað hafa verið lagðar fram ýmsar tölur sem hafa verið athyglisverðar, en þegar kemur að því að bera þær saman á milli stofnana hafa þær reynst ónothæfar. Um þetta eru mörg dæmi sem hægt væri að tilfæra.

Annað vandamál í þessu sambandi er samkeppni á milli stofnana og jafnvel á milli deilda innan stofnana. Samkeppni er að mínu mati góð en hún þarf þá að gerast á einhvern þann hátt sem skilar árangri þannig að hún sé kerfisbundin og þeir sem standi sig best njóti þess. Til að geta viðhaldið slíkri samkeppni, þurfum við að koma einhverju því kerfi á sem umbunar þeim sem best standa sig. En við leysum ekki það vandamál með því að sameina alla. Þá verður ekki um neina samkeppni að ræða og við munum ekki njóta þess hags sem getur verið af samkeppninni.

Mesti vandinn í heilbrigðiskerfinu er á sjúkrahúsunum og hugsanlega er hann mestur hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík. Minni sjúkrahúsin eiga líka í vanda þótt hann komi fram á annan hátt þar sem mikill munur er á einingunum. Vandinn kemur oft fram í umræðum sem togsteita á milli dreifbýlis og þéttbýlis, ekki síður en á milli stórra sjúkrahúsa og minni sjúkrahúsa. Þennan vanda væri sennilega hægt að leysa ef um skýrari verkaskiptingu væri að ræða á milli þessara stofnana. Vandinn hefur auðvitað verið sá hvernig hægt er að koma þessari verkaskiptingu á og hvernig við skipuleggjum starfsemina eftir að betri verkaskiptingu hefur verið komið á á milli þessara stofnana.

Hvernig ættum við helst að skipuleggja starfsemina? Við þurfum auðvitað helst að skipuleggja hana þannig að við fáum sem mesta framleiðni út úr henni, að við fáum sem mesta vinnu fyrir sem minnsta fjármuni. Ég held að við þurfum þar af leiðandi að nýta allar þær stofnanir og öll þau tæki sem við höfum í höndunum frekar en líta til þess að byggja nýjar stofnanir og nýjar byggingar umfram það sem við höfum í dag. Það kostar einfaldlega of mikla peninga. Þess vegna þurfum við að hafa verkaskiptinguna þannig að á hinum minni sjúkrahúsum fari fram aðgerðir sem eru tiltölulega einfaldar og krefjast minni tækjabúnaðar og hugsanlega minni kostnaðar. Á stærri stofnununum, hinum svokölluðu hátæknisjúkrahúsum, fara þá fram erfiðari aðgerðir og staðið verði sem best að þeim. Ef við blöndum tiltölulega einföldum og svo erfiðum aðgerðum saman í miklum mæli innan sömu stofnunar er hætta á að gripið sé til dýrari lausna á einfaldari aðgerðum. Þar er sú freisting til staðar að nota stór og dýr tæki jafnvel þótt aðgerðirnar séu einfaldar og hægt hefði verið að gera þær á ódýrari hátt.

Ég held líka að við þurfum í sambandi við stóru hátæknisjúkrahúsin að skoða vel kostnaðinn við legu sjúklinganna eftir aðgerðir. Ég held að við verðum að skoða mjög vel þær tillögur sem komu frá landlækni varðandi sjúkrahótel þar sem sjúklingar geta náð sér eftir aðgerð og fengið viðeigandi umönnun á ódýrari hátt en inni á stóru og dýru hátæknisjúkrahúsunum.

Í umræðunum í dag hefur dálítið verið rætt um þær tillögur sem verið er að vinna í nefnd sem hæstv. heilbrrh. skipaði til þess að endurskoða heilbrigðiskerfið. Þar hefur verið talað um kjördæmastjórnir í heilbrigðismálum og að fjármagnið verði að fylgja sjúklingnum. Þegar þetta hefur verið rætt að undanförnu hefur það verið í hálfgerðum slagorðastíl og lítið sinnt um hvernig ætti að útfæra þessar hugmyndir. Enda skilst mér að starfinu innan þessarar nefndar sé langt frá því lokið, samstaða hefur ekki náðst og fátt um útfærðar tillögur enn sem komið er. Ég held að báðar þessar hugmyndir séu mjög athyglisverðar og vert að skoða hvernig hægt er að útfæra þær á heppilegan hátt. Það er með þetta eins og svo margt sem við fjöllum um. Leiðirnar eru fleiri en ein og það er ekki víst að allar leiðirnar liggi að því takmarki sem við höfum sett okkur.

Ef heilbrigðisstjórnir í kjördæmum eiga að vera rekstrarstjórnir yfir öllum heilbrigðisstofnunum kjördæmisins, held ég að við séum á rangri leið. Ef þessar stjórnir eiga hins vegar að vera einhvers konar sjúkrasamlag þar sem útdeilt er fjármunum til stofnananna í samræmi við þá vinnu og þjónustu sem þær veita, þá held ég að við séum hins vegar á betri leið með þessa hugmynd. En þá velti ég því fyrir mér hvort það sé skynsamlegt kerfi fyrir okkur að hafa slíkar stjórnir eftir kjördæmum. Reyndar hefur mér skilist að það eigi ekki að fylgja kjördæmum hér á suðvesturhorninu, þar á að blanda saman Reykjavík og Reykjaneskjördæmi vegna nálægðar. Hugsanlega getur það verið í lagi. En hvaða jafnvægi verður í þessu kerfi ef við erum með heilbrigðisstjórn sem nær yfir þrjá fimmtu þjóðarinnar og síðan eru heilbrigðisstjórnir í hverju hinna sex kjördæmanna þar sem sex heilbrigðisstjórnir eru yfir tveimur fimmtu þjóðarinnar? Ég er sannfærður um að það verður einhver slagsíða á því kerfi, jafnvel svo mikil að það gæti ekki gengið upp. Ég held þess vegna að við verðum að reyna að útfæra þessa hugmynd í einhverjum einingum sem væru líkari að stærð. Þess vegna gæti verið rétt að hafa eininguna á suðvesturhorninu ekki eins stóra og hugmyndir hafa verið um og einingarnar í öðrum hlutum landsins stærri en hugmyndir hafa verið um.

[18:30]

Ég ítreka að ég sé ekki að þær séu skynsamlegar nema þær séu á þessu formi sem ég nefndi að vera eins og gömlu sjúkrasamlögin voru en stærri útgáfur af þeim. Það tengist auðvitað því að fjármagnið á að fylgja sjúklingnum og sjálfsagt höfum við öll reynt að láta fjármagnið fylgja sjúklingnum þegar við höfum verið að ákveða útgjöld í heilbrigðiskerfinu og vonandi gera þau það í sem ríkustum mæli. Hins vegar hefur orðið ákveðin breyting í heilbrigðiskerfinu. Það hefur orðið meiri aukning á höfuðborgarsvæðinu hjá stóru sjúkrahúsunum en á sjúkrahúsunum úti á landi og stærri hluti af aðgerðunum hefur farið fram á stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu heldur en úti á landi að undanförnu. Þetta getur verið eðlilegt. Á hinn bóginn hafa aðilar dregið það í efa að ekki hafi verið um sannfærandi tilflutning á fjármagni að ræða í anda þess að fjármagnið eigi að fylgja sjúklingnum.

Þegar við hugsum á hvaða hátt við getum látið fjármagnið fylgja sjúklingnum eru margar leiðir til í því. Ein leiðin þykir mér reyndar ekki vera góð. Hún minnir á það sem eitt flugfélagið auglýsti einu sinni: Fljúgið strax, far greitt síðar. Sjúklingurinn kemur einhvers staðar inn á einhverja stofnun og fær þá þjónustu sem hann þarf á að halda, síðan sendir læknirinn einungis reikninginn og fær hann borgaðan. Í kerfi sem væri byggt upp á þennan hátt væri falinn mjög mikill hvati fyrir lækna til þess að stunda lækningar sínar og mikil hætta á því sem kallað hefur verið oflækningar og menn hafa haft áhyggjur af á undanförnum árum, ekki bara hér á landi heldur víða erlendis líka. Ég held að miklu farsælli leið sé í því að láta fjármagnið fylgja sjúklingnum væri að gera áætlanir fyrir rekstur tiltekinna sjúkrahúsa miðað við þá reynslu sem við höfum haft á undanförnum árum um það hvaða sjúkdómstilfelli koma upp og hvaða aðgerðir þarf að gera og hafa þá í huga kostnað og hagkvæmni þess hvar skynsamlegast sé að framkvæma aðgerðirnar, m.a. með tilliti til þess hvort um er að ræða einfaldar eða erfiðar aðgerðir og það sé tiltölulega skýr verkaskipting á milli stofnana, á milli sjúkrahúsa og þá sérstaklega á milli stóru sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og minni sjúkrahúsanna hér í kring og úti á landsbyggðinni. Ég held að þetta sé sú leið sem er skynsamlegust til þess að láta fjármagnið fylgja sjúklingnum. Ef áætlanir hafa ekki reynst réttar minnkar fjárveitingin til sjúkrahússins á einhvern fyrir fram ákveðinn hátt með tilliti til þess hvaða kostnað sjúkrahúsið hefði annars þurft að leggja í og eins á hinn bóginn ef það hefur reynst þurfa að gera fleiri aðgerðir heldur en upphaflega var áætlað aukast fjárveitingarnar á einhvern fyrir fram ákveðinn hátt miðað við það hve mikinn kostnað þær aðgerðir sem hefur fjölgað eitthvað hefðu í för með sér fyrir sjúkrahúsið. Þetta ætti að vera kerfi sem leyfði hreyfingu á verkefnum á milli sjúkrahúsa og á milli stofnana þannig að það ætti ekki að þurfa að grípa til niðurskurðar af orsökum sem væru ófyrirséðar en jafnframt ætti tilfærslan að koma frá sjúkrahúsum sem hefðu að öðrum kosti ekki not fyrir fjárveitingu sína vegna þess að starfsemin hafi verið minni.

Aðeins að lokum, herra forseti, örlítið um ástandið í dag. Ég held að við þurfum að fá úr því skorið áður en við gerum þar miklar breytingar hvaða þjónustu við fáum fyrir þær fjárveitingar sem þegar hafa verið ákveðnar. Ef við komumst síðan á einhverju stigi að þeirri niðurstöðu að sú þjónusta sé ekki nægjanleg verðum við að leita til þeirra stofnana sem sýna mesta hagkvæmni í rekstri til þess að hjálpa okkur við að leysa þann vanda sem við sjáum þá hugsanlega fyrir okkur.