Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 18:35:35 (2858)

1996-02-08 18:35:35# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[18:35]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Mathiesen fyrir mjög upplýsandi og áhugaverða ræðu. Mig langar til þess að tæpa á nokkrum hlutum sem hann minntist áðan á vegna þess að margt af því sem hann sagði kom beint eða óbeint fram í ræðu minni áðan. Hann talaði um skort á upplýsingum um kostnað sem hefði háð fjárln. t.d. um einstakar aðgerðir.

Þegar ég var að tala um þetta ákveðna stöðugildi sem hefði verið á vegum Ríkisspítala og ráðuneytis áðan var ég að tala um DRG-kerfið sem gefur nákvæmlega þessar upplýsingar. Það væri því gott fyrir fjárlaganefndarmenn að vita af því að til er tæki til þess að mæla þetta.

Samkeppni milli stofnana og milli deilda. Ég vil líka minnast á það að þegar ég starfaði á Ríkisspítölunum var komið upp svokallaðri sviðaskiptingu. Sviðaskiptingin var einmitt gerð með tilliti til þess að samkeppni yrði að hluta til milli deilda og milli stofnana og fólki yrði umbunað fyrir að standa sig vel og hluti afgangs yrði eftir á sjálfri deildinni og annað rynni til spítalans sem heildar. Þetta er mjög í takt við það sem var að gerast fyrir tíu árum hjá fagmönnum en hefur ekki komið í framkvæmd. Það er nauðsynlegt að nýta allar stofnanir og tæki betur. Ég hef ítrekað sagt og ég tek undir það að við höfum næga steinsteypu. En við þurfum að bæta þjónustuna og efla hana og nýta peningana í það.

Ég vildi líka minnast á heilbrigðisstjórnirnar eftir kjördæmum. Þessi hugmynd kom fyrst upp innan heilbrigðisnefndar Sjálfstfl. fyrir tæpum áratug. Þá var rætt um kjördæmi en í því tilviki kom aftur upp sá vandi að deila héruðum eftir kjördæmum vegna þess að t.d. hentaði það ekki Strandamönnum að sækja þjónustu sína og vera undir hatti Vestfjarða vegna samgönguerfiðleika á þeim tíma. Öllu var haldið opnu í því tilviki og ég fagna því að Árni skuli hafa veitt þessu athygli.