Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 18:39:49 (2861)

1996-02-08 18:39:49# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[18:39]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Halldór Laxness segir frá því í bók sinni Innansveitarkróníka, að Ólafur bóndi á Hrísbrú hafi lifað marga presta á Mosfelli og hann hafi alltaf talað um einn og sérhvern þeirra eins og um flokk væri að ræða og ævinlega með sama tignarheiti í fleirtölu: Þessir andskotar!

Ég er búinn að lifa allmarga heilbrigðisráðherra og hafa þeir flestir átt erfiða daga og fallið undir tignarheiti Ólafs á Hrísbrú í tali stjórnarandstöðu og jafnvel þjóðin talið sér trú um að þeir væru ekki of vel innréttaðir. Einn var sagður t.d. haga sér eins og fíll í glervörubúð um árið, hv. núv. þm. Sighvatur Björgvinsson. Svo aftur sé nú vitnað til þeirra Hrísbrúarmanna þá sagði Andrés á Hrísbrú að hreppsnefndin væri ekki nein skemmtinefnd, allra síst eftir að bæði traffík og konkúrensi væri farið að grafa um sig í héraðinu. Ríkisstjórnin er nefnilega engin skemmtinefnd og glímir við mörg og flókin úrlausnarefni.

Stærsta verkefnið er að stöðva sífellda hækkun ríkisútgjalda og koma í veg fyrir að þurfa að hækka skatta, tekjuskatt og virðisaukaskatt á fólkið sem er á vinnumarkaðnum. Það er horft á fjármagn sem fer til heilbrigðis- og tryggingamála enda um 50 milljarðar. Það er eðlilegt að horft sé þangað og spurt eftir sparnaði og meðferð á þessum peningum. Niðurskurður til heilbrigðsmála er sársaukafullur og allt orkar tvímælis þá gert er. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að í ljósi þess að kona gegnir nú því veigamikla embætti að vera heilbr.- og trmrh. megi vænta þess að málin verði tekin mýkri höndum.

Við sem þekkjum hæstv. heilbrrh. Ingibjörgu Pálmadóttur og hennar vinnubrögð vitum að hún er með margt gott á prjónunum og mun vonandi ná þjóðarsátt um þennan viðkvæma málaflokk. Heilbrrh. sagði í ræðu sinni í dag eitthvað á þá leið sem sýnir að margt er að gerast: ,,Hagræðing og uppstokkun til að fá meira fyrir minna. Það er verið að vinna að slíkum verkefnum.`` Hún sagði enn fremur: ,,Samhæfing og samvinna á milli sjúkrastofnana er í fullum gangi.``

Hæstv. heilbrrh. sniðgengur ekki stjórnarandstöðuna og á hún nú aðild að allri stefnumótun í heilbrigðismálum. Er ekki stjórnarandstaðan sátt við það að núv. heilbrrh. hefur kallað hana til starfa í þennan viðkvæma málaflokk, kallar hana til ábyrgðar, hlustar á rök hennar við að endurskipuleggja þetta flókna og viðamikla kerfi. Þetta gera ekki allar ríkisstjórnir. Þetta gera ekki allir ráðherrar. Ég trúi því að þetta verði til þess að við munum fremur ná þjóðarsátt um málaflokkinn að stjórnarandstaðan er höfð með í verkinu.

Hæstv. heilbrrh. sagði í ræðu sinni: ,,Horfum áratug fram í tímann, ekki einungis til eins árs í senn.`` Ég fagna þessari yfirlýsingu. Ég verð því miður að segja: Margir hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa ekki einu sinni horft ár fram í tímann. Þeir hafa ekki talað í núinu, hvað er að gerast þessa stundina. Þeir hafa hort aftur í tímann. Höfuð þeirra hefur snúið til baka inn í fortíðina þar sem þeir eru að tönnlast á kosningaloforðum sem á auðvitað að standa við. En pólitíkin snýst ekki um fortíð. Hún snýst um það sem er fram undan og það skiptir máli.

Hæstv. ráðherra sagði frá því að hafin væri endurskoðun almannatryggingalaga með það að leiðarljósi að þeir sem mest þurfa á aðstoð og samhjálp að halda fái þá aðstoð sem þeir þurfa. Getum við hv. þm. ekki orðið sammála um að kannski er ekkert óeðlilegt að við verðum af ýmsum ástæðum að endurskoða samhjálpina til þess að koma henni til þeirra smáu og veiku. Við verðum kannski að taka með einhverjum hætti af þeim sem meira hafa til þess að hjálpa þeim sem ekki ráða við hlutina sjálfir vegna þess að þeir eru þannig efnum búnir. Ég tel þetta mikið verkefni og um það þurfi að ná sátt.

[18:45]

Hæstv. forseti. Það þarf að móta langtímastefnu um hvernig og hvar skuli sparað í heilbrigðiskerfinu. Sumt er hægt, annað gera menn ekki. Ákvarðanir um niðurskurð á ekki að taka að tillögum fjárln. eða hæstv. fjmrh. eða hans verkamanna, heldur að vandlega athuguðu máli í samráði við færustu sérfræðinga og heilbrigðisstéttir. Íslendingar eru sem betur fer hraustasta og lífsglaðasta þjóð í heimi. Samt láta menn á Alþingi og víða eins og hér sé allt í rúst í heilbrigðismálum og þjóðin sé að farast úr veikindum. Er ekki umræðan ýkt? Er hún ekki stundum að ganga fulllangt? Er það heppilegt af Alþingi og stjórnarandstöðu að tala svona? Við eigum bestu lækna jafnvel í veröldinni og óvenju starfshæfar heilbrigðisstéttir. Fyrsta verk hæstv. ráðherra var að stöðva fleiri byggingar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Það kallaði á átök víða. Menn vildu um leið og þeir stóðu frammi fyrir rekstrarvanda líðandi stundar láta milljarða renna í að byggja til viðbótar nýjar heilsugæslustöðvar og sjúkrahús sem jafnvel áttu ekki að koma í gagnið fyrr en eftir áratug. Ég fagnaði því þeirri niðurstöðu að menn staldri við og íhugi hvað rétt er að gera því að byggingu fylgir búnaður og starfsfólk. Við eigum húsnæði til að þjóna miklu stærri þjóð í heilbrigðismálum en við erum. Vandinn er að reka kerfið og spara peninga.

Vandinn er líka sá að á næstu 25 árum gerast mikil tíðindi. Nú eru sex Íslendingar á vinnualdri um hvern ellilífeyrisþega. Þegar ég og mín kynslóð verður komin í þennan hóp, verða þrír Íslendingar á vinnualdri um hvern ellilífeyrisþega. Þetta eru staðreyndir máls. Þá verða ekki 26 þúsund Íslendingar 67 ára og eldri. Þá verða þeir 52 þúsund, en svipað hlutfall fólks á vinnumarkaði. Þetta er vandinn sem blasir við í framtíðinni. Þá verðum við komnir með svipað hlutfall og flestar þjóðir í aldursbreidd. Þá verða ekki eins og nú 10% þjóðarinnar 67 ára og eldri, heldur nær 20%, að minnsta kosti 17--18%. Þetta er eitthvað sem nálgast okkur óðfluga og við verðum í tíma að huga að. Það væri ábyrgðarleysi af okkur sem nú erum á starfsaldri að reyna ekki að hugsa: Hvernig getur næsta kynslóð á vinnualdri staðið undir þessum fjölda með sköttum og skyldum?

Einn vandinn sem nú er glímt við er sennilega sá að hér eru læknar og sérfræðingar orðnir of margir. Þess vegna er hávaði í kerfinu. Því fylgja átök að berjast á of litlum markaði ekkert síður þar en annars staðar. Þarna eru of margir alveg eins og það eru of margir í landbúnaði, of margir í smábátaútgerð o.s.frv. Við þekkjum þau átök. Morgunblaðið sem fylgist vel með þjóðmálum skýrir frá því í fyrradag hvernig fjöldi starfandi lækna og sérfræðinga á Íslandi hefur þróast. Fyrir 20 árum voru þeir 412. Nú eru þeir nær 900. Fólkinu hefur ekkert fjölgað verulega. Veikindin hafa ekkert vaxið verulega. Við höfum jafnvel ráðið við suma sjúkdóma þannig að þeir eru ekki eins afgerandi og þeir voru. En það hriktir í kerfinu þegar svona stendur að menn eru að spara peninga. Ég er ekkert að lá læknunum það. Þeir vilja auðvitað hafa þá aðstöðu sem þeir hafa, að vísa frá sér til sín og Tryggingastofnun borgar.

Ein leið til að draga úr þrýstingi væri sú að flytja inn sjúklinga. Læknarnir eru taldir með þeim færustu í heimi eins og ég sagði og hér er ýmislegt sem býður upp á heilsulækningar, leirböð í Hveragerði og Bláa lónið. Við höfum séð í fréttum að Grænlendingar koma hér og hæstv. ráðherra sagði frá því að við þá hafi tekist samstarf. Við eigum að athuga í vaxandi mæli hvort við getum ekki flutt inn sjúklinga til að fleiri fái að nýta þá frábæru sérfræðinga og lækna sem við eigum og þá aðstöðu sem við eigum í heilbrigðismálum og þá sérstöðu þannig að ég vil leggja á það áherslu.

Ég skal viðurkenna að ekkert fer meira í taugarnar á mér en biðraðir í hjartaaðgerðir, bæklunaraðgerðir og fleira. Af slíku hlýst oft mikið tjón og vinnutap á Íslandi. Ég treysti hæstv. heilbrrh. til að finna leiðir út úr þessum vanda. Þetta er eitt stærsta vandamálið sem við horfum nú á. Þar gæti komið til endurskipulagning á starfsemi sjúkrahúsa og að skurðstofur væru nýttar nánast allan sólarhringinn. Biðlistum fylgir vinnutap og slíkt er dýrt og dýrast atvinnulífinu.

Nú er það að gerast að einstök fyrirtæki gefa peninga til þessa málaflokks. Um slíkt verður að móta stefnu. Þetta kallast kostun og snýr að því að fyrirtæki kaupa sér ímynd. Í mínum huga er ekki sama hvernig þetta þróast. Hinu má velta upp hvort atvinnulífið hér borgi jafnmikið til heilsutrygginga og í nálægum löndum. Á síðustu árum hefur sköttum verið velt af atvinnulífinu yfir á launþega. Ég nefni t.d. einn skatt, aðstöðugjaldið sem féll flatt á hvern einasta rekstur. Því var aflétt.

Bæklunar- og hjartaaðgerðir eru í stórum stíl framkvæmdar á fólki á vinnualdri. Væri það reikningslega hagkvæmt fyrir atvinnulífið að biðlistar hyrfu og atvinnulífið tæki á sig lágan viðbótarskatt til að reka skurðstofurnar? Ég vil enn fremur spyrja: Er kannski önnur leið? Við skulum taka stærstu tryggingasjóði landsmanna sem eru lífeyrissjóðir. Þeir eru ekki bara handa fólki þegar það verður gamalt. Þeirra stærsta hlið sem verkalýðshreyfingin hefur vakið athygli á eru auðvitað tryggingar einnig. Nú eru þetta sterkríkustu sjóðir þessa lands, lífeyrissjóðirnir og við skulum líta á þróun þeirra og stækkun. Frjáls sparnaður í bönkum og hjá ríkinu, hjá almenningi, var 90 milljarðar 1987, sama upphæð og lífeyrissjóðakerfið réð yfir þá. Nú er hinn frjálsi sparnaður 250 milljarðar en lífeyrissjóðirnir ráða yfir 314 milljöðrum. Er kannski ekki betra að íhuga, af því að þeir fá margt af þessu fólki inn á tímabundnar örorkubætur, hvort ekki væri eðlilegt að þeir kæmu einhvern veginn inn í spilið til að herða á framkvæmd hjartaaðgerða og bæklunaraðgerða? Þessir sjóðir eru eign launþeganna og atvinnulífsins. Er þetta vettvangur til að stytta hinar löngu biðraðir á þessu sviði sem eru stærsti skammtímavandinn?

Ég vil svo að lokum lýsa því yfir að ég er andvígur innritunargjöldum á sjúkrahús. Ég tel forvarnir mikilvægar. Ég fagna því t.d. hvernig forvarnir, samanber krabbameinsleit í brjóstum kvenna, hafa tekist vel í gengum tíðina og komið í veg fyrir dauða og tjón á mörgum sviðum. Við getum velt fyrir okkur karlmönnum. Þeir farast mjög mikið úr krabbameini. Það byrjar ekki í brjóstunum heldur í blöðruhálsi. Er hægt að hefja þar forvarnastarf? Svo er auðvitað hitt atriðið sem skiptir mestu máli, herra forseti. Það er fyrirbyggjandi starf að menn hreyfi sig, stundi líkamsrækt og leikfimi á öllum aldri.

Ég trúi því, herra forseti, að þetta þing sem nú situr með hæstv. heilbrrh. í fararbroddi muni ná þjóðarsátt um þennan stóra og mikilvæga málaflokk og umræðan, andstyggilega umræðan og rangláta á mörgum sviðum, hljóðni og við stöndum saman um okkar heilbrigðismál.