Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 18:56:11 (2862)

1996-02-08 18:56:11# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[18:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir mjög málefnalega og ágæta ræðu um heilbrigðismál. Ég tek undir orð hans að það er skynsamlegt og til fyrirmyndar að hæstv. heilbrrh. kallar stjórnarandstöðuna til þeirrar vinnu sem fram fer í stefnumótun í ráðuneytinu. Aftur á móti hefði ég gjarnan viljað að stjórnarandstaðan væri kölluð til í fleiri málum eins og í þessu niðurskurðarmáli. Þá væri kannski hægt að afstýra ýmsu þar sem mér finnst hafa verið farið helst til langt í að skerða hlut þeirra sem síst skyldi. Ég hefði gjarnan viljað að þar hefði stjórnarandstaðan verið kölluð til líka.

Hv. ræðumaður talaði um að við þyrftum að horfa til framtíðar. Ég er hjartanlega sammála honum að því leyti. Það er nákvæmlega það sem við þurfum að gera. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda. Það er mikill óróleiki í heilbrigðiskerfinu. Það er verið að skera að mjög grimmt niður, sérstaklega vil ég nefna Sjúkrahús Reykjavíkur. Þar er geysilega stór vandi. En sem betur fer heyrðist mér á varaformanni fjárln. að þeir hygðust koma þar með viðbótarfjármagn enda tel ég að þeim sé ekki stætt á öðru því að þarna hlýtur að hafa verið um slys að ræða í fjárlagagerðinni. Og ég ætla að vona að menn þurfi ekki að fara að loka 77 sjúkrarúmum varanlega, loka öldrunardeildum og heimilum fyrir sjúk börn o.s.frv. eins og blasir við.

Varðandi aukna gjaldtöku hjá sjúkrahúsunum held ég að það verði ekki lengra gengið en nú þegar hefur verið gengið að frumkvæði síðustu ríkisstjórnar. Það verður ekki lengra gengið í gjaldtöku á sjúkrahúsunum. Vanskil komugjalda hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur voru árið 1993 10 millj. í vangreiddum gjöldum sjúklinga sem komu á sjúkrahúsið. Með innheimtu náðust 4 millj. þannig að vangreidd gjöld voru 6 millj. eftir innheimtuaðgerðir. Árið 1994 voru vangreidd komugjöld á sjúkrahúsinu 10 millj. kr.