Frumvarp um orku fallvatna og jarðhita

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:06:06 (2875)

1996-02-12 15:06:06# 120. lþ. 88.1 fundur 179#B #, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:06]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að iðnrh. hefur skipað nefnd til að fara yfir þau lagafrv. sem hafa legið í drögum í ráðuneytinu í nokkurn tíma. Í þessum vinnuhópi eru Stefán Guðmundsson alþingismaður, sem er formaður nefndarinnar, Sturla Böðvarsson alþingismaður, Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur og Páll Gunnar Pálsson lögfræðingur. Þetta er í vinnu milli stjórnarflokkanna. Í skipunarbréfi nefndarinnar var gert ráð fyrir að nefndin gæti hugsanlega skilað af sér þessum frv. til ríkisstjórnar fyrir 15. des. Það verður hins vegar að segjast eins og er og það veit ég að hv. þm. skilur að þarna er um mjög erfiða og flókna hluti að ræða. Það sýnir kannski allur sá fjöldi frv. sem um málið hafa verið flutt í gegnum tíðina. En nefndin er að störfum og ég vonast til að hægt verði að sýna frv. á þinginu.