Vaxtahækkanir bankanna

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:08:50 (2877)

1996-02-12 15:08:50# 120. lþ. 88.1 fundur 180#B #, EKG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:08]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið á milli mála að undanfarið hafa vextir í landinu verið að hækka. Nýlega hafa nokkrir viðskiptabankar tilkynnt sérstaklega um vaxtahækkun. Þetta gerist á sama tíma og fréttir berast um það að verðbólga hér á landi sé lægri en gerist og gengur í Evrópusambandsríkjunum. Þetta gerist á sama tíma og dregið hefur verulega úr fjárfestingu ríkisins og mun gera á þessu ári. Þetta gerist á sama tíma og verið er að hrinda í framkvæmd nýjum fjárlögum sem fela í sér minnkandi opinbera lánsfjárþörf. Þetta gerist á sama tíma og útlánatöp bankanna fara minnkandi. Þetta gerist á sama tíma og bankarnir sjálfir segja frá því að rekstrarkostnaður þeirra sé minni en áður sem ætti að þýða að öllu óbreyttu lægra vaxtastig og minni vaxtamun.

Hæstv. viðskrh. greindi frá því í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að hann hygðist bregðast við þessum óvæntu og alvarlegu tíðindum úr bankaheiminum um hækkun vaxta með einhverjum hætti sem hann tilgreindi þó ekki nánar. Ég hygg að það sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra ræði þessi mál hér og nú þegar tækifæri gefst til og greini hv. þingi frá því með hvaða hætti hann hyggst taka upp þessar viðræður við bankastofnanirnar sem hann vill að leiði síðan til þess að vextirnir lækki að nýju eins og öll efnahagsleg skilyrði eru til staðar fyrir hér á landi. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra með hvaða hætti hann hyggist beita sér fyrir viðræðum og aðgerðum sem kunni að leiða til þess að vaxtastigið hér á landi lækki að nýju eins og öll efnahagsleg skilyrði eru fyrir og ég hef þegar rakið.