Fréttastofa sjónvarps

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:18:37 (2882)

1996-02-12 15:18:37# 120. lþ. 88.1 fundur 181#B fréttastofa sjónvarps# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:18]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég tel að um þetta mál eigi að fjalla í ljósi þeirra fjárráða sem Ríkisútvarpið hefur og ég tel að Ríkisútvarpið hafi rúm fjárráð miðað við íslenska fjölmiðla. Ríkisútvarpið býr við ágætan fjárhagsramma að mínu mati. Síðan er það stofnunarinnar að komast að niðurstöðu um það hvernig þessu fé skuli varið til einstakra deilda innan stofnunarinnar eða einstakra stofnana á vegum Ríkisútvarpsins, ef þannig má að orði komast. Því fé hefur verið skipt með ýmsu móti í gegnum árin og þróunin verið á ýmsan hátt. Ef svo er komið, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, að fréttastofu sjónvarps sé sniðinn það þröngur stakkur að hún geti ekki sinnt lögboðnum verkefnum sínum ber stjórnendum Ríkisútvarpsins að huga að málefnum fréttastofunnar með það í huga að sinna þeirri lagaskyldu sem á stofnuninni hvílir.

Hins vegar ber að líta til þess að uppi hafa verið hugmyndir og á það bent, m.a. af Ríkisendurskoðun, að unnt væri að ná fram hagræðingu í starfsemi Ríkisútvarpsins með því að sameina fréttastofu sjónvarpsins og fréttastofu hljóðvarpsins og þetta mál hefur verið hér til umræðu. Ég hef í sjálfu sér ekki tekið undir þá skoðun Ríkisendurskoðunar endilega að það beri að stefna að þessu og ég held að það tryggi m.a. ekki þá þjónustu sem hv. fyrirspyrjandi minntist á en meginafstaða mín í þessu máli er sú að fjárhagsrammi Ríkisútvarpsins sé rúmur og innan hans eigi stofnunin að geta sinnt þeim verkefnum sem henni ber lögum samkvæmt en það sé stjórnenda hennar að skipta þessum fjármunum og sjá til þess að einstakir aðilar innan Ríkisútvarpsins geti sinnt sinni lagaskyldu.