Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 16:20:42 (2894)

1996-02-12 16:20:42# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[16:20]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Af orðum hæstv. ráðherra marka ég að það hafi ekki verið haft fyrir fram samráð við hann um að ræða þessi mál öll undir einum dagskrárlið, hann hafi bara ekki gert athugasemdir við það hér í þinginu þegar hæstv. forseti bar það upp. Það tel ég umhugsunar- og athyglisvert.

Í öðru lagi, sem er nú mikið merkilegra því hitt er formsatriði, kemur fram hjá hæstv. ráðherra að honum er ekki skýrt frá því, hvorki af ráðherrum Sjálfstfl., þingmönnum hans né þingflokksformanni, að fjórir þingmenn flokksins hafi tekið ákvörðun um að flytja á Alþingi frv. sem gengur gegn þeirri stefnu sem hæstv. viðskrh. og hæstv. sjútvrh. hafa orðið sammála um. Mér er vel kunnugt um það frá fyrri tíð hver skoðun sjútvrh. er í þessu máli. Ég veit ekki hver er skoðun viðskrh. En þarna er um samkomulag að ræða, þannig að sé spjóti beint gegn einhverjum þá er því beint gegn hæstv. sjútvrh. og vilja hans en ekki hæstv. viðskrh. þótt hann flytji málið. Mér finnst athyglisvert að ráðherra sé ekki skýrt frá því að þingmenn úr samstarfsflokki hans hyggist flytja mál af þessu tagi gegn því frv. sem hann ber ábyrgð á gagnvart ríkisstjórninni og gegn samkomulagi sem hann hefur gert við hæstv. sjútvrh. um hvernig skuli haldið á málinu. Mér fannst líka athyglisvert í máli hans að hann skyldi lýsa ástæðunum fyrir þessu svo að þingmenn Sjálfstfl. væru komnir í keppni við þingmenn stjórnarandstöðunnar um uppboð gegn ríkisstjórninni. Þingmenn Sjálfstfl. og stjórnarandstöðunnar eru sem sé farnir að keppa um það hvor geti boðið betur gegn samkomulagi sem ríkisstjórnin hefur náð innan sinna vébanda. Það var mjög athyglisverð yfirlýsing og örugglega sett fram að vandlega íhuguðu máli, hafandi skoðað aðstæður, virðulegur forseti, og komist að skynsamlegustu niðurstöðu sem hægt er að komast að.

Virðulegi forseti. Mér fannst ekki eðlilegt að taka þessa umræðu í upphafi þegar rætt var um frv. hæstv. viðskrh. En mér fannst eðlilegt að biðja um orðið um fundarstjórn forseta þegar kom að yfirboðsfrumvarpi stjórnarandstæðinga í Sjálfstfl.