Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 16:23:38 (2895)

1996-02-12 16:23:38# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., viðskrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[16:23]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson geri úlfalda úr mýflugu. Staðreyndin er sú að ég sá strax í morgun að þessi mál voru öll á dagskrá og gekk þá út frá því að þau yrðu öll tekin til umræðu á sama degi, án þess þó að mér hafi verið tilkynnt sérstaklega að þau yrðu tekin öll saman eins og hér hefur verið gert. Ég geri engar athugasemdir við það, ég tel að það sé fyrst og fremst til að flýta fyrir þingstörfum.

Varðandi hið síðara þá er það að sjálfsögðu stefna ríkisstjórnarinnar að koma stjfrv. í gegnum þingið. Ég veit að það er stuðningur við málið í báðum stjórnarflokkunum, einróma að því er ég vona. Ég hef enga ástæðu til að halda að þeir hv. þm. Sjálfstfl. sem lagt hafa fram frv. um beina fjárfestingu í sjávarútvegi styðji ekki stjfrv. þótt það gangi skemur. Auðvitað hljóta þeir að styðja það þótt ég treysti mér ekki til þess að styðja það frv. sem þeir hafa mælt fyrir. Stjórnarflokkarnir hafa ekki sameinast um slíkt frv., það frv. sem þeir hafa sameinast um er stjfrv.