Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 16:26:52 (2897)

1996-02-12 16:26:52# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[16:26]

Flm. (Kristján Pálsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Pétur H. Blöndal, Vilhjálmur Egilsson og Guðjón Guðmundsson.

1. gr. hljóðar svo: Í stað 1. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur nýr töluliður er orðast svo: Erlendir aðilar mega eiga allt að 49% hlut í fyrirtækjum sem vinna sjávarafurðir hér á landi og/eða stunda fiskveiðar.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í upphafi máls míns vil ég aðeins gera athugasemdir við þann málatilbúnað sem hér hefur orðið varðandi þetta frv. af hálfu stjórnarandstöðunnar. Ég vil benda þeim á þá staðreynd að það frv. sem við fjórmenningarnir leggjum hér fram gengur lengra en frv. ríkisstjórnarinnar. Það er einfaldlega ásetningur okkar að láta reyna á það hvort það geti verið þingmeirihluti fyrir því að ganga lengra en stjórnin hugðist gera. Ef það frv. sem við mælum fyrir nær ekki fram að ganga munum við að sjálfsögðu styðja stjfrv. Ég vil einnig minna hv. stjórnarandstæðinga á það að þingmenn Sjálfstfl. fara í þessu máli eftir sannfæringu sinni sem okkur er tamt og við skulum segja skylt að gera samkvæmt þeim eiðstaf sem við skrifuðum undir þegar við gerðumst þingmenn á hv. Alþingi. Það kemur mér því mjög á óvart að hv. stjórnarandstæðingar skuli taka það óstinnt upp að hér skuli koma fram frumvörp sem eru ekki nákvæmlega eins og stjórnarfrumvörp sem lögð eru fram af ríkisstjórninni. Ég verð að segja að það undrar mig mjög að virtir stjórnmálamenn eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Jón Baldvin Hannibalsson skuli undrast að mál komi fram með þessum hætti. Þeir þurfa að skoða söguna betur ef þeim finnst þetta einstætt. (Gripið fram í: Þeir eru ekki hissa á neinu frá Sjálfstfl.)

Í greinargerð sem við höfum lagt fram með þessu frv. segir:

Með þessum lögum er verið að heimila beina fjárfestingu erlendra aðila í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar og fiskvinnslu. Skorður eru þó settar við slíkri fjárfestingu og má hún ekki verða meiri en 49%.

Íslenskur sjávarútvegur hefur á síðustu árum átt í verulegum erfiðleikum vegna samdráttar í þorskveiðum. Innan greinarinnar hefur verið brugðist við breyttri stöðu með endurskipulagningu framleiðslunnar, sameiningu fyrirtækja, endurfjármögnun lána og með skráningu sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Allar þessar aðgerðir hafa orðið til þess að efla fyrirtækin í greininni og þau snúið vörn í sókn. Ljóst er að velflestar greinar fiskvinnslunnar eru reknar með töluverðu tapi og ekki er fyrirsjáanlegt að það breytist. Það er áhyggjuefni í ljósi þess að launafólk í fiskvinnslu hefur tekið mikið af þessum erfiðleikum á sínar herðar með hógværð í launakröfum. Ekki er hægt að búast við því að slík þolinmæði verði viðvarandi og eru þegar brögð að því að íslenskt fiskvinnslufólk leiti til útlanda eftir vinnu í fiski.

[16:30]

Búast má við miklum breytingum á stöðu fiskvinnslu og útgerðar á Íslandi ef frumvarp þetta verður að lögum. Þar ber helst að nefna að áhættufjármagn kemur inn í greinina, meiri möguleikar til markaðsöflunar, breyttar aðferðir í fiskvinnslunni og sterkari fyrirtæki í sjávarútvegi.

Með tilkomu samninga um Evrópska efnahagssvæðið var gert ráð fyrir að fjárfesting aðila innan þess yrði heimil á Íslandi með undantekningum í orkufyrirtækjum, flugi og sjávarútvegi. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um erlenda fjárfestingu, sem lagt hefur verið fram, er gert ráð fyrir að bein fjárfesting erlendra aðila í flugrekstri á Íslandi sé heimil allt að 49%. Ekki er hægt að sjá nein rök fyrir því að mismuna fyrirtækjum á Íslandi að þessu leyti. Ástæður eins og að sjálfstæði landsins sé stefnt í hættu eiga ekki við lengur enda öryggisákvæði 6. gr. frumvarps ríkisstjórnarinnar, sem heimilar viðskiptaráðherra að stöðva erlenda fjárfestingu ógni hún öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði, sett til að koma í veg fyrir slíkt.

Á síðustu áratugum hefur verið reynt að fá erlenda fjárfestingu til landsins og þá sérstaklega til orkufrekrar starfsemi, t.d. álvera. Þrátt fyrir mikla fyrirhöfn hefur miðað hægt í þeim málum. Á síðustu árum hefur einnig verið opnað fyrir aðra erlenda fjárfestingu með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í þeim tilfellum var miðað við að hámarksfjárfesting erlends aðila í einu fyrirtæki yrði ekki hærri en 250 millj. kr. án sérstakrar heimildar ráðherra. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er nú gert ráð fyrir að fella það ákvæði út því að ásókn útlendinga er mjög lítil og fjárhæðir lágar. Erlendir fjárfestar leita ekki hingað nema þeir sjái hagnaðarvon og að hingað sé eitthvað nýtt að sækja. Í sjávarútvegi eru Íslendingar fremstir meðal jafningja og íslenskir ráðgjafar eftirsóttir um heim allan. Það sem við höfum helst að bjóða erlendum fjárfestum er því tengt sjávarútveginum, bæði þekking og framleiðsla. Þetta verður að hafa í huga ef auka á áhuga erlendra aðila fyrir fjárfestingu á Íslandi. Frumvarp ríkisstjórnarinnar er aðeins breyting á lögunum í átt til ríkjandi ástands á óbeinni eignaraðild erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi.

Ekki er hægt að sjá að sú þróun verði stöðvuð að fyrirtæki renni meira og minna saman fjárhagslega þvert á landamæri ríkja ef atvinnurekstur og þjóðfélag hefur hag af því. Þannig hafa komist á legg hliðarfyrirtæki sem beinlínis verða til við fjárfestingu nýrra aðila. Þessi þróun hefur t.d. orðið mjög áberandi á Írlandi þar sem blómleg fyrirtæki og menntasetur hafa risið með tilkomu frísvæða.

Því fyrr sem stór skref verða stigin í átt til frjálsari samskipta við erlenda fjárfesta og íslenskum fyrirtækjum er gefinn kostur á að tileinka sér breytingar sem nú eiga sér stað í hinum vestræna heimi því betur gengur að bæta kjör almennings á Íslandi.

Það má spyrja þess hvort breyting á lögunum núna sé nauðsynleg. Það er alltaf hægt að spyrja sig þess hvort breytingar séu nauðsynlegar eða hvort þær megi bíða um sinn. Skoðun mín er sú að íslenskur sjávarútvegur sé eins tilbúinn og hann getur verið til að taka á þeirri óhjákvæmilegu samkeppni sem hann lendir í fyrr en síðar um afnot af auðlindum hafsins. Það tel ég sjást vel á tilraunum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja víða erlendis á sviði sjávarútvegs og má þar benda á útgerðarrekstur Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja í Þýskalandi, Granda í Chile og ráðgjafarstörf og rekstur Íslenskra sjávarafurða í Kamtsjatka og Íslendinga víða um heim.

Það hefur einnig orðið mikil breyting í flóru íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og þau sameinast og ná þannig mikilli hagkvæmni í rekstri sem hefur aukið arðsemi þeirra mikið. Þó íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafi náð að breyta miklu hjá sér til batnaðar er samt mjög veik fjárhagsstaða hjá þeim flestum. Þau vantar áhættufé sem lánsfé. Þau vantar einnig að víkka út sjóndeildarhringinn. Þó við séum með þeim fremstu á sviði sjávarútvegs er ljóst að við getum lært mikið af öðrum þjóðum. Þar ber sennilega helst að líta til frænda okkar Dana sem virðast reka botnfiskvinnsluna mun betur en við. Þeir eru einnig miklir sölumenn og geta kennt okkur meira á þeim sviðum. Þótt margt gott hafi gerst í rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna þá gerast hlutirnir ekki nógu hratt, laun fólks í þessari grein eru ekki nægilega há. Ástæðan er fyrst og fremst sú að virðisaukinn í vinnslunni er ekki nægilega mikill til að geta greitt hærri laun. Ég tel að betri eiginfjárstaða og meiri virðisauki náist með beinni aðild erlendra fjárfesta í greininni. Þá náist þau markmið frekar að bæta kjör fiskverkafólks. Um leið og það tekst eflist staða þjóðarbúsins.

Í þessu sambandi ber einnig að líta til þess að í ljósi vaxandi fjárfestingar íslenskra fyrirtækja erlendis hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir okkur að opna fyrir slíkt hér svo ekki verði stigið á þá útþenslustefnu sem nú er hjá íslenskum fyrirtækjum í sjávarútvegi.

Það má spyrja sig þeirra spurningar: Því ekki að stíga skrefið til fulls og leyfa útlendingum að eiga íslensk sjávarútvegsfyrirtæki 100%? (Gripið fram í: Bara Ísland.) Að mínu mati er það ekki tímabært þó ekki verði komist hjá því síðar. Íslendingar verða fyrst að trúa því að þeir séu ávallt með vald yfir auðlindinni og að hún sé þjóðareign. Það tortryggja ýmsir og finnst mér rétt að stjórnarskrárbinda það ákvæði svo ekki fari á milli mála. Ég er raunar sjálfur viss um að ekkert í lögum getur heimilað sölu kvótans til útlanda og þessi lagabreyting ef af verður gerir það ekki heldur. Kvótanum er deilt út með lögum frá Alþingi og honum er deilt út fyrir aðeins eitt ár í senn. Samkvæmt lögum eru aðeins fyrirtæki skráð á Íslandi sem mega veiða í íslenskri lögsögu með aðsetur á Íslandi og með íslenskan meiri hluta stjórnar og hlutafjár, sbr. lög nr. 30/1992. Þar stendur í síðustu málsgrein 2. gr.:

,,Til fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands má aðeins hafa íslensk skip en íslensk nefnist í lögum þessum þau skip sem skráð eru hér á landi.``

Þetta er sá kafli í lögunum sem verður óbreyttur þrátt fyrir breytingar þær sem ríkisstjórnin leggur til. Þetta þýðir með öðrum orðum og er grundvallaratriði að kvóta verður ekki úthlutað nema til íslenskra skipa. Í frv. okkar er verið að tryggja meirihlutaeign Íslendinga. Það er talað um meirihlutaeign Íslendinga og minnihlutaeign útlendinga.

Ég vil einnig geta þess að fjárfesting erlendra aðila í íslenskri útgerð var heimil í tæp 70 ár eða allt til ársins 1991. Í lögum nr. 33/1922 segir svo í 11. gr.:

,,Hlutafélög hafa því aðeins rétt til að reka fiskveiðar og fiskverkun í landhelgi, að allt hlutaféð sé eign íslenzkra ríkisborgara. Þó mega hlutafélög, er ríkisborgarar annarra ríkja eiga hlut í, reka fiskveiðar í landhelgi, ef meira en helmingur hlutafjárins er eign íslenzkra ríkisbogara, félagið á heimili á Íslandi, stjórn þess skipuð íslenzkum ríkisborgurum og sé helmingur þeirra búsettur þar.``

Með öðrum orðum: Útlendingar höfðu í tæp 70 ár heimild til að eiga 49,999% í íslenskum útgerðarfyrirtækjum. Ég hef ekki heyrt um að á þessum 70 árum hafi það valdið miklum erfiðleikum í íslenskri útgerð. Ég held að þær hættur sem talað er um séu ekki fyrir hendi og fyrst og fremst sé verið að reyna að fiska í gruggugu vatni hræðsluáróðurs um að útlendingar muni gleypa allt og selja allt sem íslenskt er ef þeir komast að.

Skoðun mín hefur alla tíð verið sú að við eigum að fagna því að fá útlenda aðila með okkur til að reka íslensk fyrirtæki, það sé okkur einungis til góðs. Ég tel að við verðum að stíga stór skref í átt til frjálsræðis í sjávarútveginum í dag svo við drögumst ekki aftur úr öðrum vestrænum þjóðum í afkomu. Sagan segir okkur að mikil erlend samskipti hafa lyft okkar þjóð upp og má þar minnast Sturlunga og kappa okkar í Íslendingasögunum sem sóttu auð og völd til útlanda og dvöldu langdvölum erlendis en komu allir aftur. Ég er ekki hræddur við frjálsræðið því undir þeim kringumstæðum höfum við Íslendingar einmitt staðið okkur best. Góður árangur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í efnahagsmálum hefur skapað þær forsendur að stór skref eru möguleg í dag.

Virðulegur forseti. Í ljósi þess sem ég hef rakið er ekkert að óttast við að heimila erlenda aðild beina erlenda aðild að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Hvorki að þeir kaupi upp kvótann né flytji hann úr landi. Við eigum frekar að nýta okkur erlent fjármagn og þekkingu. Það tel ég að sé þjóðinni til framdráttar.

Varðandi stefnubreytingu í ríkisstjórninni í því sem kom fram í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar er eins og ég sagði áðan einungis um að ræða frv. fjögurra þingmanna sem gengur lengra heldur en stjfrv. gerir ráð fyrir. Ég tek undir flest af því sem kom fram í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar. Það var vel flutt og rökfast að öðru leyti en því að það væri mikil hætta á einhverri allsherjaruppreisn í þjóðfélaginu þó svo að farið yrði upp í 49%. Ég held að Íslendingar séu í raun orðnir það upplýstir um samskipti erlendra ríkja og Íslendinga við önnur ríki að þeir skilji að þar er engin hætta.

Það var mér mikið ánægjuefni eins og hv. þm. Ágústi Einarssyni að Morgunblaðið lýsti í leiðara yfir stefnubreytingu í þessu máli og talaði um ný viðhorf. Ég vil gera þau orð að mínum og um leið og ég lýk máli mínu vísa ég þessu frv. til efh.- og viðskn.