Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 18:42:09 (2915)

1996-02-12 18:42:09# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[18:42]

Magnús Stefánsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu eitt af grundvallarmálefnum íslensku þjóðarinnar, þ.e. spurningin um hvort erlendir aðilar skuli eiga eignarhald í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum eða ekki.

Umræðan í dag hefur verið um margt mjög athyglisverð, ekki síst fyrir það að hér er til umræðu í senn þrjú frumvörp um sama málefnið. Í fyrsta lagi stjfrv. um óbeina aðild erlendra aðila að íslenskum sjávarútvegi, síðan tvö frumvörp sem kveða á um beina eignaraðild. Það sem vekur einna helst athygli mína í þessu sambandi er það að annað þessara frumvarpa er borið fram af hluta af þingmannaliði Sjálfstfl. sem er annar stjórnarflokkurinn og ætti því að eiga fulla aðild að því stjfrv. sem hér liggur fyrir sem lýsir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Þess vegna fer ekki hjá því að það veki athygli manna að hluti af stjórnarliðum komi fram með þessum hætti.

Þetta vekur óneitanlega upp ýmsar spurningar og þá er ég fyrst og fremst að tala um frv. nokkurra hv. þingmanna Sjálfstfl. sem hv. þm. Kristján Pálsson er 1. flm. að. Þetta gæti vakið upp spurningar um það hver stefna Sjálfstfl. er í þessum málum. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þingheim að heyra það í þessari umræðu hreint út hver stefna þingflokks Sjálfstfl. er í þessu máli. Það er hins vegar svo að á þessari stundu er enginn forustumanna Sjálfstfl. í salnum þannig að ég geri a.m.k. ekki ráð fyrir því að úr þeirri áttinni komi yfirlýsing í þessa veru en ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál og auðvitað þarf þingheimur að heyra það.

Það vekur einnig upp spurningu um það hvort hv. flutningsmenn hafi kannað afstöðu atvinnugreinarinnar, þ.e. fyrirtækjanna, aðila vinnumarkaðarins til þessa máls eða hvort þessir aðilar hafa kallað eftir þeirri breytingu sem lögð er til. Það væri fróðlegt að heyra það. Einnig kallar þetta fram spurningu um það hvort hv. flm. úr þingliði Sjálfstfl. munu ekki flytja frv. til breytinga á lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands eins og hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram. Ég tel að það hljóti að vera rökrétt að hv. þm. geri það og þess vegna væri gott að fá svar við því hér og nú hvort það muni verða svo og jafnframt hvort hæstv. sjútvrh. muni fá að vita af því fyrir fram. (Gripið fram í: Það er ekki víst.)

[18:45]

Eins og fram kom hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni í sinni framsöguræðu, var erlendum aðilum til skamms tíma heimilt að eiga allt að helmingi eignarhluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. En fyrir nokkrum árum þótti ástæða til að breyta þessu og loka fyrir þetta til að tryggja full yfirráð Íslendiinga yfir okkar helstu auðlindum sem eru fiskimiðin í hafinu umhverfis landið. Ég tel einmitt að þessi umræða um beina eða óbeina eignaraðild eða yfir höfuð eignaraðild útlendinga að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hljóti að tengjast því hvers eign þessar auðlindir eru því það hefur verið almenn sátt um það í þjóðfélaginu að fiskstofnanir séu sameign þjóðarinnar. Ég tel að þessi tvö atriði tengist beint saman. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar áðan er 49% eignarhlutur í fyrirtæki leiðandi eignarhluti. Með því að heimila útlendingum að eiga 49% í sjávarútvegsfyrirtæki, ég tala nú ekki um þar sem eignaraðild Íslendinga er dreifð, að þá sé það fullkomlega leiðandi eignaraðild. Það vekur aftur upp spurninguna um aðganginn að auðlindinni og yfirráðin yfir henni.

Eitt atriði enn vil ég nefna í þessu sambandi og það er varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég er einn af þeim sem hafa talið að ekki sé efni til þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu, fyrst og fremst vegna þess sem felst í sjávarútvegsstefnu sambandsins því að ég hef talið að ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu við óbreyttar aðstæður, þá missum við þessi yfirráð. Ég tel að þetta tengist beint saman. Ég tel að ef það yrði samþykkt hér á hinu háa Alþingi að heimila útlendingum 49% eignaraðild að sjávarútvegsfyrirtækjum værum við í raun búin að tapa þessum yfirráðum. Það er mitt mat á þeirri stöðu.

Ég tel að það sé mjög ólíklegt að erlendir fjárfestar hafi áhuga á því að leggja fjármagn í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þar sem eingöngu er um að ræða fiskvinnslu. Það hlýtur að liggja í augum uppi að ef til þess kæmi þá mundu útlendingar fyrst og fremst sækja í aðgang að fiskimiðunum, þ.e. útgerðinni. Allt tal um að aðild útlendinga að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum muni verða til að hækka laun fiskverkafólks finnst mér því ekki rökstutt og ég kaupi þau rök ekki því verði sem hér er lagt upp með.

Eitt atriði er nefnt í grg. með frv. hv. þm. Sjálfstfl. þar sem er borin saman eignaraðild að flugfélögum annars vegar og sjávarútvegsfyrirtækjum hins vegar. Ég tel ekki raunhæft að bera þetta tvennt saman þar sem flugrekstur er beinn alþjóðlegur samkeppnisrekstur en sjávarútvegur hér á Íslandi byggir öðru fremur á nýtingu auðlinda hafsins og aðgangi að þeim. Mér finnst því ekki raunhæft af hv. þm. að leggja þetta tvennt að jöfnu.

Virðulegi forseti. Það eru að sjálfsögðu ýmis jákvæð rök fyrir því að opna fyrir erlent fjármagn inn í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Það ber að viðurkenna það. En það eru einnig ýmis rök fyrir því ekki skuli opna fyrir beina eignaraðild erlendra aðila að íslensku sjávarútvegsfyrirtæki. Og það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar eins og fram kemur í tveimur stjfrv. sem lögð hafa verið fram og hæstv. viðskrh. hefur hér kynnt annað þeirra í dag, að ekki verði opnað fyrir beina eignaraðild útlendinga að sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég mun fyrir mitt leyti standa að baki ríkisstjórninni í þessu máli og veita þessum frv. brautargengi. (Gripið fram í: Ekki í öðrum málum?)

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég biðja hv. þm. og flm. frv. að vanvirða ekki skoðanaskipti hv. þm. í sölum Alþingis um þessi mál með því að skilgreina mótrök gegn beinni eignaraðild í sjávarútvegsfyrirtækjum sem einhvern hræðsluáróður. Ég frábið mér slíka umræðu því ég tel að málefnaleg umræða hafi farið fram um þessi mál. Ég get ekki tekið undir það að þeir aðilar sem eru andvígir beinni eignaraðild séu með einhvern hræðsluáróður. Ég vildi bara vekja athygli á þessu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu öllu lengur en í upphafi máls míns kallaði ég eftir afstöðu þingmanna Sjálfstfl. til þeirra frv. sem hér liggja fyrir því ég tel mjög mikilvægt að afstaða þeirra komi fram við þessa umræðu þannig að sá hugsanlegi misskilningur liggi ekki eftir að Sjálfstfl. sé sammála beinni eignaraðild erlendra aðila að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.