Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 18:51:17 (2916)

1996-02-12 18:51:17# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[18:51]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er einn þáttur í ræðu hv. þm. Magnúsar Stefánssonar sem ég vil gera að umtalsefni. Það eru ummæli hans varðandi það frv. sem fjórir þm. Sjálfstfl. hafa lagt fram. Það er augljóst af því sem hv. þm. sagði og reyndar kom fram fyrr í dag í máli hæstv. viðskrh. að það er viss brestur í stjórnarsamstarfinu. Hv. þm. Magnús Stefánsson spurði eðlilega: Hver er stefna Sjálfstfl. í þessu máli? Þetta er ekki gamanmál. Það liggur fyrir stjfrv. Það liggur fyrir frv. frá stjórnarþingmönnum sem gengur þvert á það frv. Þetta er ekki minni háttar breyting. Það gengur þvert á þetta frv. Mér skilst, herra forseti, að það verði gert hlé á umræðunni kl. sjö en ég vil biðja hæstv. forseta um að gangast fyrir því að einhverjir forsvarsmenn Sjálfstfl. aðrir en þeir sem hér eru verði til svara þegar umræðan verður tekin upp aftur. Það getur verið forsrh., formaður flokksins, fjmrh., varaformaður flokksins eða formaður þingflokks (Gripið fram í) eða sjútvrh. Mér skilst að hann sé erlendis. (Gripið fram í: En hvað með formann Fiskifélagsins?) Það gengur ekki, hæstv. forseti, að hér sé lagt upp með svo óljósa hluti í umræðunni eins og hér er. Við eigum kröfu á því að vita stefnu Sjálfstfl. í þessu máli. Ég hef satt best að segja ekki lagt í vana minn að taka upp hanskann fyrir Framsfl. en ég geri það í þessu máli. (Gripið fram í: Þakka þér fyrir.) Mér finnst þetta vera eðlileg spurning sem hv. þm. Magnús Stefánsson spurði hér. Það er eðlileg krafa að vita stefnu samstarfsaðilans í þessu máli. Og það er líka eðlileg krafa að stjórnarandstaðan viti hvaða frv. nýtur meirihlutastuðnings stjórnarliða. Þetta eru eðlileg kröfur sem hér eru bornar fram.