Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 14:12:02 (2934)

1996-02-13 14:12:02# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[14:12]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. samgrh. hefði átt að skammast til þess áðan að flytja almennilega framsöguræðu fyrir tillögunni og reyna að skýra málin. Það er von að maður spyrji út í ýmislegt þegar engar upplýsingar eru veittar, hvorki í þskj. né ræðunni. Ég vil í fyrsta lagi spyrja út af þessu sem ég hafði heyrt hæstv. samgrh. segja áður: Hvar liggur þetta fyrir skriflega þannig að þingið geti treyst því, þetta sem hann kallar skilning milli samgrn. og fjmrn.? Er hæstv. fjmrh. tilbúinn til að leggja á borðið undirritað samkomulag um það að öll skerðingin á mörkuðum tekjum í ríkissjóð bæði á fyrri árum og nú komi til frádráttar þeirri skuld sem stofnað var til með lántökum á síðasta kjörtímabili?

Hæstv. samgrh. reynir að bjarga sér út úr vandanum þegar að honum er sótt trekk í trekk með þessu orðalagi. Ég óska eftir því að þetta mál verði upplýst. Ég treysti illa hæstv. fjmrh. í þessum efnum, ekki vegna þess að hann sé óheiðarlegur eða tvöfaldur í roðinu, heldur vegna þess að ég veit að hann hefur ítrekað reynt að halda hinu gagnstæða fram. Í öðru lagi fullyrði ég að niðurskurðurinn mun bitna mjög þungt á almennum miðlungsstórum og smáum verkum --- vegna hvers? Vegna þess að til viðbótar niðurskurðinum sem slíkum hefur verið boðið óvenjumikið út af stórum verkefnum nú á síðustu mánuðum. Vegagerðin hefur verið á fullu við að bjóða út verk sem ýmist eru undir liðnum stórverkefni eins og Gilsfjörður eða á höfuðborgarsvæðinu eins og Ártúnsbrekka. Það eru Mývatnsöræfi og það eru mörg fleiri stór verkefni, bæði innan almennu vegáætlunarinnar og þau sem falla undir stórverkefni eða framkvæmdaátak. Það er þar af leiðandi einfaldlega svo lítið eftir sem ekki er búið að ráðstafa að almennu verkin og miðlungsstóru verkin hljóta að þurfa að taka þann niðurskurð á sig í ríkum mæli. Ég veit að þetta á eftir að koma í ljós. Hæstv. ráðherra getur mín vegna reynt að halda öðru fram, en staðreyndirnar munu að lokum tala sínu máli.