Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 14:35:25 (2942)

1996-02-13 14:35:25# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[14:35]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hæstv. ráðherra eigi að njóta sannmælis og samkvæmt þeirri töflu sem við þingmenn fengum rétt fyrir þessa umræðu, þá kemur það vissulega fram að í auknum mæli hefur verið veitt fé til brýnna og mikilvægra verkefna á höfuðborgarsvæðinu og hafi hæstv. ráðherra í síðustu ríkisstjórn þakkir fyrir. En nú bregður svo við að þeirri sókn er ekki haldið áfram.

Hæstv. ráðherra gerði tilraunir til þess að skýra út þann talnagrunn sem að baki þessari þáltill. liggur og ég hlýt að hlusta og taka mark á. Það er hins vegar augljóst af hans svörum að það er margt óútskýrt og ýmis talnagrunnur að baki þeim tölum sem hér er að finna sem menn þurfa að gaumgæfa miklu mun betur til þess að það liggi ljóst fyrir hvaða fjármunir það eru í raun sem menn hafa til ráðstöfunar til vegamála á árinu 1996 og hvaða fjármuni þeir hafa ekki. Það er alls ekki ljóst og þarf miklu greinarbetra yfirlit þar um en nú þegar liggur fyrir.