Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 14:42:10 (2948)

1996-02-13 14:42:10# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, KH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[14:42]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú var nú tíðin að vegáætlun var nánast heilagt plagg og öldungis fáheyrt að menn léðu máls á niðurskurði til vegamála. Mig rámar í það minnsta í hörð viðbrögð margra þegar ég leyfði mér að benda á þennan málaflokk sem aflögufæran þegar verið var að fást við lítils háttar halla á ríkissjóði fyrir rúmum áratug. Það virtist þá ganga guðlasti næst. Nú er hins vegar svo komið að milljörðunum er sveiflað til og frá í þessum málaflokki eins og öðrum. Það er klipið af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar og halað inn í ríkissjóð til annarra nota og framkvæmdaátak svokallað fær ekki að standa óáreitt út árið. Sjálfsagt láta þingmenn þetta frekar yfir sig ganga nú en fyrir áratug eða meira þegar ástand vega var ólíkt verra en er þó orðið núna. En vissulega er margt ógert enn þá eins og við erum öðru hverju minnt á í þingsölum þegar deilt er um brýr, göng og vegi hér og þar. Það er því engin spurning að það munar um minna en þær breytingar sem hér eru lagðar til á ársgamalli vegáætlun.

Þær breytingar sem áætlaðar eru á mörkuðum tekjum í ljósi reynslu af innheimtu og skilum eru eðlilegar, en um aðrar breytingar mætti endalaust deila, einkum þá tölu sem sýnir ásælni ríkissjóðs eftir stærri og stærri bita af mörkuðum tekjum. Í rauninni má það teljast stórmerkilegt að svo fámenn þjóð sem við Íslendingar erum og í svo stóru landi og erfiðu yfirferðar skuli þó hafa tekist að gera vegakerfið þannig úr garði sem við nú þekkjum. En það hefur kostað okkur mikið fé og það á eftir að kosta okkur mikið fé að bæta það enn frekar og halda því við. Það eru notendur þessa vegakerfis eða öllu heldur bílaeigendur sem hafa staðið undir þessum framkvæmdum með sköttum á eldsneyti og öðru sem tilheyrir. Þeir greiða margfaldar álögur á bensíndropann og þeir greiða þungaskatt og bifreiðagjöld og alls konar gjöld langt umfram þær upphæðir sem síðan eru nýttar til vegamála. Bílaeigendur hafa reyndar oft stunið undan þessum álögum en huggað sig við að þeir nytu góðs af þeim aðgerðum sem þær rynnu til. Vaxandi kurr í þeirra röðum er svo sannarlega skiljanlegur með tilliti til sívaxandi ásælni ríkissjóðs í þessa tekjustofna til annarra þarfa.

Vissulega ber þó að líta til þess að notkun bifreiða og annarra farartækja hefur margvíslegan annan kostnað í för með sér fyrir samfélagið heldur en bara gerð og viðhald vega, brúa og jarðganga. Sá kostnaður felst m.a. í heilbrigðisþjónustu af ýmsu tagi því umferðin kostar samfélagið svo sannarlega háar upphæðir vegna slysa og óhappa sem erfitt er að meta nákvæmlega til fjár. Ef menn væru sammála um þá skoðun að umferðin ætti að standa undir sjálfri sér í einu og öllu, þar með töldum öllum afleiddum kostnaði, þá er út af fyrir sig ekki fráleitt að ætla að þeir 17--18 milljarðar sem plokkaðir eru af bíleigendum með ýmsu móti séu réttlætanlegir þegar allt kemur til alls, en sennilega er málið ekki svona einfalt.

[14:45]

Þegar að útgjaldaþættinum kemur í þessari tillögu þá hlýtur maður að velta fyrir sér og hafa áhyggjur af hvað verði undan að láta þegar um svo mikinn niðurskurð er að ræða. Tölurnar á blaðinu segja manni það eitt að heildartalan minnkar um rúmar 900 millj. kr. og flestir liðir fá að kenna á því miðað við gildandi vegáætlun. Niðurstaðan verður sjálfsagt svipuð og í heilbrigðisgeiranum sem verið hefur mest til umræðu þessar vikur og mánuði. Það verður reynt að auka hagræðingu og nýta féð á sem hagkvæmastan hátt eins og reynt hefur verið á undanförnum árum með reyndar ágætum árangri, þ.e. með þeim árangri að tekist hefur furðuvel að ég tel að halda langtímaáætlun. Það hefur t.d. verið gert með því að slá af kröfum og áætlunum um t.d. breidd bundins slitlags og fleira þess háttar. Það verður hins vegar að segjast eins og er að þar með hefur að mínum dómi um leið verið slegið af öryggisþættinum sem er vissulega hið versta mál. Því að mjórri vegir eða mjórra bundið slitlag býður heim hættu þegar bílar eru að taka fram úr eða mætast á vegum úti á landsbyggðinni. Auk þessa munu biðlistar lengjast rétt eins og aðgerðalistar sjúkrahúsanna. Framkvæmdir munu færast aftur eða kannski öllu heldur fram í tímann um mánuði eða jafnvel ár. Það verður erfitt að takast á við þessa stöðu í þingmannahópunum. Ég þekki það a.m.k. úr mínu kjördæmi þar sem brýn og stór verkefni bíða í hrönnum. Umferðin eykst ár frá ári og kallar á dýrar lausnir, breikkun vega, sérhönnuð vegamót, göngubrýr og undirgöng, lýsingu og önnur öryggisatriði, auk þess sem brýnt er að huga að hjólreiðabrautum og reiðvegum. Það er hins vegar um þetta síðasttalda að segja að hjólreiðabrautir falla ekki undir verkefnasvið Vegagerðarinnar. Hér liggur að vísu fyrir Alþingi frv. sem er til umfjöllunar í nefnd um að hjólreiðabrautir verði felldar undir verkefnasvið Vegagerðarinnar. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Svavar Gestsson og ég hef þegar lýst yfir stuðningi við það frv. En það hefur ekki verið afgreitt og ekki að vita hvernig fer um það. Til reiðvega eru áætlaðar 10 millj. kr. og segir sig nú sjálft að ekki verður mikið gert fyrir þá upphæð. Þetta verður gríðarlega erfitt dæmi. Sem dæmi má nefna að sjáanlega færist vegurinn milli Grindavíkur og Þorlákshafnar, sem við þingmenn Reykn. höfum flestir ef ekki allir mikinn áhuga á, inn í blámóðu framtíðarinnar.

Áætlanir voru uppi um framkvæmdir fyrir um það bil 1 milljarð kr. á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. En eins og kemur fram í athugasemdum við þáltill. er nú gerð tillaga um 431 millj. kr. framlag til höfuðborgarsvæðisins og þar af fara 193 millj. kr. til greiðslu skuldar við Reykjavíkurborg. Þannig að eftir standa aðeins 238 millj. kr. til allra þeirra mörgu og dýru framkvæmda sem eru á biðlistanum á þessu svæði. Það er vægast sagt ótrúleg staða. Það er því ekki að ófyrirsynju sem forsvarsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu komu saman í desember og ályktuðu þess efnis að það stefni í óefni í þessum málum þegar svona er staðið að verki. Þeir minna á að mörg aðkallandi verkefni hafa setið á hakanum á höfuðborgarsvæðinu um árabil. Fyrirhugaður niðurskurður á nauðsynlegu framkvæmdaátaki er áætlaður um þriðjung aðeins ári eftir að um átakið var samið og það mun leiða til röskunar á framkvæmdaáætlunum og valda drætti á brýnum úrbótum. Enn fremur muni slíkur niðurskurður grafa undan þeirri víðtæku samstöðu sem náðist um forgangsröðun framkvæmda við þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu og ég tek undir þær áhyggjur. Sú samstaða sem þarna er vitnað til var merkur áfangi og fagnaðarefni sem menn bundu vonir við en sú samstaða leiðir ekki til þess sem menn ætluðu ef svona er staðið að verki. Þeir minna á þetta framkvæmdaátak en samkvæmt því var gert ráð fyrir að 578 millj. kr. yrði varið til þessa verkefnis á höfuðborgarsvæðinu árið 1996 en það er áætlað nú í heild sinni aðeins 650 millj. kr.

Því má heldur ekki gleyma að ríkið hefur skorið niður framlög til annarra framkvæmda á þess vegum sem eykur enn á þrýstinginn í þessum geira og úti um landið, þ.e. utan suðvesturhornsins, er um það talað að þar sem framkvæmdir vegna stækkunar álvers og fleiri þátta séu ýmist hafnar eða í uppsiglingu þá sé sanngjarnt að láta byggðir utan höfuðborgarsvæðisins síður gjalda niðurskurðar í vegaframkvæmdum. Þetta sjónarmið heyrðist m.a. hjá hv. formanni fjárln. hér áðan og kom ekki á óvart. En þetta stangast svo aftur á við vaxandi þörf á suðvesturhorninu einmitt vegna þessara framkvæmda svo og að sjálfsögðu vegna þess að umferðaraukningin er almennt mest á þessu svæði. Þannig er þetta dæmi allt hið erfiðasta viðureignar.

Það er svo aftur allt önnur saga að sú var tíðin að þingmenn Reykjavíkur létu sig þessi mál litlu varða og höfðu engan áhuga á að hafa áhrif á skiptingu vegafjár eða tryggja framlög úr ríkissjóði til framkvæmda við innkomuleiðir í borgina og aðalsamgönguleiðir hennar. Það voru þingmenn Reykn. sem tóku það hlutskipti á sínar herðar. Og það var ekki fyrr en fyrir u.þ.b. sex árum að farið var að leita leiða til að réta hlut Reykjavíkur sem er náttúrlega ekkert einkamál borgarinnar heldur allra landsmanna sem eiga hana að höfuðborg. Niðurstaðan varð sú þegar farið var að skoða þessi mál að svo mjög hefði hallað á Reykjavík árum saman að samningur var gerður um sérstakar greiðslur ríkisins til borgarinnar til að greiða fyrir ýmsar framkvæmdir sem borgin hefur lagt út fyrir en eiga að greiðast úr sameiginlegum sjóðum. Þessum greiðslum er dreift á nokkur ár og þar eru komnar þessar 193 millj. sem teljast skuldagreiðslur til Reykjavíkurborgar í ár. Sömu upphæðir eiga að koma til greiðslu a.m.k. árið 1997 og 1998. Þetta er samkvæmt samningi sem þáv. borgarstjóri, Davíð Oddsson, og þáv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, undirrituðu árið 1991. En ég treysti mér alveg til að fullyrða að þeir hafi ekki ætlast til að þessar greiðslur yrðu til þess að rýra almennt framkvæmdafé í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu eins og nú blasir við.

Herra forseti. Ég vænti þess að við eigum eftir að fá upplýsingar um ýmsa þá þætti sem felast á bak við þær tölur sem hér standa á blaði. En það verður ekki auðvelt að vinna úr þessum aðstæðum. Fyrir mér er sú spurning talsvert áleitin hvort hér sé ekki vegið að öryggisþáttum í samgöngumálum þegar enginn vegur er að mæta þörfum og kröfum vegna sívaxandi umferðar af öllu tagi.