Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 14:57:03 (2949)

1996-02-13 14:57:03# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[14:57]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að leiðrétta misskilning sem fram kom hjá hv. þm. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hv. þm. fær það fram að einungis 238 millj. kr. eigi að renna til höfuðborgarsvæðisins á þessu ári. Það eru rúmar 615 millj. kr. samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Það er einnig misskilningur hjá hv. þm. að þær 193 millj. kr. sem fara til skuldagreiðslu til Reykjavíkurborgar bitni sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki rétt, þessar greiðslur koma af óskiptu vegafé og þess vegna er hér um misskilning að ræða. Auðvitað verður að standa við þann lánssamning eins og aðra slíka samninga. Hann hefur því ekki verið skorinn niður. Á hinn bóginn sést í þeirri töflu sem hér hefur verið útbýtt um hversu mikið fé rennur til einstakra kjördæma að þessum 193 millj. kr. hefur verið bætt við það fjármagn sem rennur til höfuðborgarsvæðisins sem er auðvitað rétt í þeim skilningi að þær framkvæmdir sem ætlast er til að þessir fjármunir standi undir voru hér unnir á sínum tíma en það væri kannski rétt að setja þetta upp með öðrum hætti til að ekki valdi misskilningi.

Ég vil enn fremur leggja á það áherslu að á undanförnum árum og eins nú hefur óvenjumikið fé runnið til vegamála þannig að ástandið er miklu, miklu betra heldur en horfur voru á t.d. fyrir fimm árum þegar síðasta ríkisstjórn var mynduð. Ég hygg að við getum alveg fullyrt að það hefur verið horft til vanda þéttbýlisins, umferðarinnar hér og hættunnar sem af of mikilli og hraðri umferð stafar með öðrum hætti en áður. Við höfum viljað koma til móts við höfuðborgarbúa að þessu leyti.