Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:26:00 (2961)

1996-02-13 15:26:00# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:26]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. 18. þm. Reykv. um Spöl og hugsanlegt gjaldþrot Spalar tek ég fram að ég tel ástæðu til að vara við sleggjudómum varðandi þessa verkframkvæmd. Engin ástæða er til þess að vera með dóma í því máli um hugsanlegt gjaldþrot eða annað slíkt. Í fréttum að undanförnu hefur komið fram ádeila ákveðins verkfræðings á framkvæmdina. Ég vil að gefnu tilefni benda á að norskir ráðgjafar hafa hvað mesta þekkingu í gangagerð. Í Noregi eru 25 af lengstu veggöngum í heiminum, þar eru um það bil 550 km af vegöngum og það nýjasta er 3,8 km veggöng. Ég nefni þessa norsku ráðgjafa ásamt íslenskum verkfræðingum sem hafa verið í þessum málum vegna þess að þar er þekkingin hvað mest og sennilega hefði aldrei verið viðurkennt af fjármögnunaraðilum að hlíta eingöngu ráðum frá íslenskum verkfræðingum.

Ég tek undir að mér þótti eins milljarðs kr. ábyrgðin vera á vafasömum forsendum þegar hún var veitt vegna þess að ekki var beðið um nema 300 millj. kr. í ábyrgð. Ég held að rétt sé að taka fram að samningar eru á næstu dögum samkvæmt blaðafregnum í dag. Þá mun auðvitað koma í ljós hvernig málið fer en gert er ráð fyrir því eftir þeim heimildum sem ég hef að verktakar beri að fullu alla ábyrgð á verkinu þar til sex mánuðir eru liðnir frá því að verkframkvæmd er lokið. Gert er ráð fyrir því að stuðst sé að fullu og öllu við norska staðla varðandi veggöngin sem eru með hvað hæstar gæðakröfur í heiminum varðandi vegframkvæmdir á þennan hátt. Ég vildi að þetta kæmi fram. Ég tek fram að þetta er ekki árás eða því um líkt á þingmanninn en ég vil vara við sleggjudómum.