Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:30:08 (2963)

1996-02-13 15:30:08# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:30]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég get út af fyrir sig ekki haldið því fram að það teljist til stórtíðinda að undirritaður stigi í ræðustól í þessari stofnun. Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum áður. Hins vegar vil ég láta þess getið að ég hef aldrei áður talað í umræðum um vegáætlun. Ástæðan til þess að ég nefni það er sú að þessi mál hafa mjög sjaldan komið að þingmönnum Reykvíkinga. Það er síðari tíma mál að þingmenn Reykvíkinga séu kvaddir til varðandi vegamál. Af þeim ástæðum höfum við þingmenn Reykvíkinga að undanförnu setið nokkra fundi ásamt starfsmönnum Vegagerðarinnar, ásamt þingmönnum Reyknesinga, ásamt fulltrúum borgarstjórnar Reykjavíkur til þess að fjalla um þessi mál vegna þess að vissulega eru gríðarlega miklir fjármunir í húfi að því er Reykjavík varðar og miklir hagsmunir í húfi, ekki síður en í öðrum kjördæmum og jafnvel frekar. Það er því full ástæða til að við látum okkur þessi mál nokkru varða. Ég tók eftir því að hv. 18. þm. Reykv. gerði þessi mál að umtalsefni áðan og reyndar einnig hv. 12. þm. Reykn., ef ég tók rétt eftir.

Mig langar til að nota minn tíma í fyrsta lagi til þess að ræða almennt um stöðu Reykjavíkur í þessu sambandi og hins vegar til þess að víkja lauslega að vegáætluninni sem slíkri. Ég vil fyrst segja að ég held að það sé óhjákvæmilegt að vegamál almennt og ákvörðunarferlið í vegamálum verði tekið til heildarendurmats. Það liggur fyrir að í lögum um vegamál, eins og þau hljóða nú, er gert ráð fyrir því að hæstv. samgrh. framkvæmi tilteknar skyldur, tiltekin verkefni, t.d. varðandi langtímavegáætlun sem hér hefur verið minnst á, sem hann hefur ekki gert um margra ára skeið. Hann hefur með öðrum orðum brotið lögin að því er þetta varðar með vanrækslu sinni. Mér finnst út af fyrir sig sjálfsagt að halda til haga gagnrýni á ráðherrann í þessu sambandi, en það er líka ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort umgjörð málsins sé með þeim hætti að það beri að taka það til endurmats hvernig um þetta er fjallað í lögunum líka. Og ég vil beina því til hv. formanns samgn. sem hér er, hvort ekki sé ástæða til þess að velta því mjög alvarlega fyrir sér.

Ég vil einnig í þessu sambandi víkja að ákvæðum 18. gr. laganna, þar sem gert er ráð fyrir tilteknum reglum varðandi skiptingu á því fé sem fer til einstakra framkvæmdaliða í vegamálum. Ég hygg að þarna hafi menn verið mjög á mörkunum, a.m.k. hæstv. núv. samgrh., að því er varðar það að taka ákvarðanir um skiptingu á þessum fjármunum án þess að bera það undir Alþingi með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.

Menn geta sett á miklar ræður um það hvort þetta sé rétt eða rangt og hvort einhverjir aðrir hafi gert þetta svona eða hinsegin. Í rauninni er það algjört aukaatriði í málinu. Aðalatriðið er það að hér hefur lagabókstafurinn bersýnilega ekki verið framkvæmdur til hlítar. Það er augljóst mál. Og þess vegna á viðkomandi þingnefnd, ef ekki að frumkvæði einhvers hér í salnum með flutningi máls, þá að eigin frumkvæði, að taka þessi mál til meðferðar, þ.e. vegalögin sem slík og hvort þar á að skoða mál betur eða með öðrum hætti heldur en gert er.

Þetta stafar ekki síst af því, hæstv. forseti, að ég tel líka að ýmis önnur verkefni hafi verið tekin inn á vegáætlun eins og flóabátar, sem setja þessi mál í allt annað samhengi en þau áður voru. Ég nefni í því sambandi hvort menn ættu ekki að velta því fyrir sér að gera heildarsamgönguáætlun, ekki aðeins um vegi og flóabáta heldur einnig um ýmis önnur samgöngutæki en flóabáta, t.d. almenningsvagna og þá er ég ekki bara að tala um almenningsvagna í þéttbýli, heldur líka almenningssamgöngur á landi. Ég er líka að tala um flugsamgöngur og ég er líka að tala um hafnir. Og það er spurning, hæstv. forseti, hvort það á ekki í tilefni af þessari umræðu að velta því fyrir sér að hér verði til heildaráætlun í samgöngumálum þar sem þessir þættir eru látnir hjálpast að, vinna saman með skipulegum og eðlilegum hætti. Það hefur reyndar lengi verið flokksstefna okkar alþýðubandalagsmanna að það væri skynsamlegt að reyna að halda þannig á málum en ég hygg að með hliðsjón af því hvernig annars vegar forsendur mála hafa breyst, t.d. með því að taka inn flóabáta, með hliðsjón af því að það er bersýnilegt að núverandi ráðherra hefur vanrækt að framkvæma lögin, að ekki sé meira sagt, þá er nauðsynlegt að taka alla heildarlagaumgjörð þessara mála til meðferðar.

Ég vil einnig í þessu sambandi minna á það að í hv. samgn. liggja fyrir frumvörp um breytingar á vegalögum, m.a. um það að reiðhjólastígar verði hluti af hinu almenna samgöngukerfi og gatnakerfi landsmanna og ég tel einboðið að það liggi í augum uppi að samgn. hljóti að taka það til sérstakrar og vinsamlegrar afgreiðslu. Þetta vil ég segja almennt um vegalög og vegáætlun.

Í annan stað vil ég víkja aðeins að aðkomu okkar að málinu, þingmanna Reykvíkinga. Hún er sérkennileg. Hún er sérkennileg vegna þess að aðrir þingmenn og kjördæmahópar hafa um árabil haft með sér tiltekið samstarf í þessum efnum og það gengur væntanlega nokkuð vel. A.m.k. láta menn þannig af þessu. Ég hef enga reynslu af því en menn láta nokkuð vel af þessu samstarfi. Hér er um að ræða fimm, sex eða sjö manna hópa. Í okkar tilviki, Reykvíkinga, er um að ræða 19 manna þingsveit sem kemur eins og allir sjá talsvert öðruvísi að þessu máli.

Í hittiðfyrra var rætt um það við okkur að við þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness tilnefndum sérstaka samráðsnefnd með fulltrúum allra flokka sem hefði samráð varðandi framkvæmdir hér á því sem kallað er höfuðborgarsvæði. Við vorum í þessu einn frá hverjum flokki og fullnægðum þannig hinu venjubundna samráði sem venjulega er á vegum kjördæma þingmanna. Þetta samráð gilti aðeins um framkvæmdir á árinu 1995 og síðan í lok síðasta árs vorum við aftur kölluð til vegna útboðs á Ártúnsbrekkunni. Hins vegar er það þannig að þingmenn Reykjavíkur hafa ekki komið að þessum málum, aldrei, á sama hátt og þingmenn annarra kjördæma. Af þeim ástæðum höfum við m.a. óskað eftir á sérstökum fundum inni í Vegagerð þar sem við höfum fjallað um þessi mál með starfsmönnum Vegagerðarinnar, þingmenn Reykvíkinga. Okkur hefur verið tekið vel þar og ég tel ástæðu til þess að þakka fyrir þær upplýsingar og þær umræður sem þar hafa farið fram í tengslum við þessar heimsóknir okkar. Það finnst mér hins vegar ekki breyta því að það þarf að skoða þessi mál aðeins betur og reyna að fella aðild Reykvíkinga annars vegar og Reyknesinga hins vegar með einhverjum hætti að þessu heildarsamráðskerfi þannig að það sé í grófum dráttum svipað og það gerist nú annars staðar.

Það má auðvitað um það deila, hæstv. forseti, hvort þetta samráðskerfi er eðlilegt eins og það er og hefur verið. Það er umdeilanlegt mál að mínu mati. Staða vegáætlunar er líka afar mikið umhugsunarefni í stjórnkerfinu. Það hefur verið þannig að þingmenn kjördæmanna hafa verið að hluta til hluti af framkvæmdarvaldinu þegar komið hefur að skiptingu þessara fjármuna, sem er mjög merkilegt, en það hefur verið þannig. Það er umhugsunarefni hvort það hafi að öllu leyti gefist vel. Ég hygg að menn séu sammála um að það sé ekki ástæða til að breyta því og úr því að svo er þá held ég að af því að Reykjavík er orðin þetta stór aðili að málinu þá verði að tryggja að samráðskerfið hér verði ekki lakara en annars staðar.

Ég vil líka segja það, hæstv. forseti, að mér finnst mikilvægt að það hefur tekist mjög gott samstarf með þingmönnum Reykjavíkur og Reykjaness um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og því samstarfi vil ég halda áfram. Þetta er að mörgu leyti nokkuð flókið samráðskerfi sem verið er að tala um, en það er samt nauðsynlegt að hafa það í huga og nótera það um leið og við erum að tala um vegáætlun.

Hæstv. forseti. Eftir að hafa farið almennum orðum um stöðu Reykjavíkur --- og þá hef ég ekki verið að tala um fjárframlögin, ég hef verið að tala um lagarammann og hina tæknilegu hlið málsins --- þá vil ég einnig vekja athygli á því að forsvarsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa gagnrýnt mjög alvarlega þann niðurskurð sem um er að ræða á framlögum hér á svæðinu og það kemur m.a. fram í ályktun forsvarsmanna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem er dags. 19. des. 1995 og er undirrituð af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Sigurði Geirdal, Sigurgeir Sigurðssyni, Gunnari Vali Gíslasyni, Ingvari Viktorssyni, Ingimundi Sigurpálssyni, Jóhanni Sigurjónssyni og Jóni Pétri Líndal, þar sem þau gagnrýna þennan niðurskurð mjög ákveðið og alvarlega. Í sjálfu sér er þeim nokkur vorkunn vegna þess að þau töldu, og telja reyndar veit ég enn, að um sé að ræða öðruvísi niðurskurð hér en annars staðar vegna þess að niðurskurðarhlutfallið sé hærra hér en annars staðar, það sé tvisvar sinnum hærra en annars staðar. Það eru rökin sem menn nota. Þessir forsvarsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem eru menn úr öllum flokkum í sjálfu sér, segja líka: Við reiknuðum með því að við værum betur varin kannski af því að þetta var hluti af samningum við verkalýðshreyfinguna. Það var gengið frá því með tilteknum hætti hvernig þessir hlutir áttu að vera. Ég man mjög glöggt eftir því að það var hv. þm. Guðrún Helgadóttir sem á þeim tíma kallaði fram ákveðið svar frá hæstv. forsrh. sem vakti mikla athygli á síðasta kjörtímabili, þar sem því var lýst yfir að tiltekin átaksverkefni í þessum málum yrðu unnin hér í samræmi við samninga við verkalýðshreyfinguna, m.a. með hliðsjón af atvinnuástandinu hér.

Nú er út af fyrir sig ekkert við því að segja þó það geti komið upp að það þurfi að endurskoða einhverja hluti, það getur alltaf gerst. En það sem menn eru að tala um hérna er að það verður að gæta sanngirni í þessum efnum og hafa þetta í grófum dráttum svipað yfir línuna. Í ábendingu sem hefur komið fram um þessi mál, m.a. í ræðu borgarstjóra við framlagningu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 1996, kemur fram að sá niðurskurður sem hér er um að ræða getur orðið til þess að framkvæmdir við Ártúnsbrekku eða verklok þeirra gætu dregist allt til ársins 1998--1999 og afleiðingarnar verða svo þær að gatnamótin við Sæbraut, sem er næsta stórframkvæmd hér á svæðinu gæti enn dregist, gatan verður lengur í uppnámi og slysahætta eykst í kjölfarið. Hér er með öðrum orðum um að ræða nokkuð alvarlegt mál. Ég ætla svo að nefna eitt lítið dæmi, hæstv. forseti, í sambandi við Reykjavík og það er göngubrúin sem verið er að tala um að gera yfir Miklubraut við Rauðagerði sem er einhver ljótasti slysapunktur í Reykjavík. Það er alveg greinilegt að staðan er þannig núna að sú framkvæmd getur verið í nokkru uppnámi, en auðvitað getur Reykjavíkurborg raðað þessum hlutum kannski með aðeins rýmri hætti en önnur byggðarlög geta gert af því að þetta er þó þrátt fyrir allt eitt sveitarfélag en í öðrum tilvikum mörg sveitarfélög.

Ég held að það verði hins vegar að taka mjög eindregið undir það með Reykjavíkurborg og forsvarsmönnum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að menn hafa ekki staðið við orð sín að því er þessi mál varðar og er sérstök ástæða til að gagnrýna það.

Ég verð að segja það líka, hæstv. forseti, að mér finnst ekki vera mjög traust efnistök á þessu máli í heild. Ég hef það ekki á tilfinningunni. Mér finnst þetta vera hálfgert sull satt að segja þegar menn ganga ekki frá langtímaáætlun í vegamálum, ganga ekki frá skiptingu framkvæmdafjármagns eins og gert er ráð fyrir í lögum, gera ekki grein fyrir neinni heildarstefnumótun heldur virðast vaða í þetta svona eftir því hvernig liggur á þeim frá degi til dags.

Það sem ég vil segja að lokum í þessu máli er það að ég auglýsi eftir heildarstefnumótun. Ég auglýsi eftir framtíðarsýn. Það sem skiptir máli í þessu er að í þróun þjóðfélaganna einmitt um þessar mundir er það þannig að samgöngumál og fjarskipti, af hvaða tagi sem er, eru úrslita- og undirstöðuþáttur í hagvexti og í því að það sé þar af leiðandi hægt að tryggja sæmileg lífskjör og standa undir almennilegu velferðarkerfi. Þess vegna eru lausatök á vegamálum, óljós framkvæmd samgöngumála í raun og veru háskalegur hlutur upp á lífskjör og aðstæður allar í framtíðinni. Og mér finnst oft á tíðum í þessum málum og málflutningi hæstv. ráðherra að þar reki sig talsvert mikið hvað á annars horn að ekki sé meira sagt, hæstv. forseti.