Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:54:31 (2967)

1996-02-13 15:54:31# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:54]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður að viðurkenna það og hv. þm. þarf að gera sér grein fyrir því að það var ekki fyrr en Alþb. fór með fjmrn. um nokkurra ára skeið að margra ára skuldir við Reykjavík voru gerðar upp með eðlilegum hætti í samningi þáv. hæstv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonarog þáv. borgarstjóra Reykjavíkur, Davíðs Oddssonar. Þá var tekið býsna myndarlega á þessum málum og ég held að það sé nauðsynlegt að halda því til haga hér.

Ég var út af fyrir sig ekki að gagnrýna neina menn fyrir kjördæmapot. Ég var ekkert að tala um það. En þó verð ég að segja að ég tel að kjördæmapot sé slæmt. Hvað er kjördæmapot? Kjördæmapot er ekki eðlileg hagsmunagæsla fyrir sitt byggðarlag. Kjördæmapot er það þegar menn taka sitt kjördæmi fram yfir allt annað þannig að það komi niður á þjóðarheildinni. Ég vona að hv. þm. sé mér alveg sammála um það. Það er úrslitamál. Kjördæmapotið er hinn þátturinn þegar menn vaða fram með sína hluti án þess að taka tillit til heildarhagsmuna. Ég verð að segja alveg eins og er að það að tilkynna 90 millj. kr. í flugvöllinn á Akureyri á kjördæmisþingi Sjálfstfl. á Norðurl. e., ja, með leyfi forseta, mér dettur í hug orðið kjördæmapot, mér dettur það í hug, en forseti getur auðvitað vítt mig ef hann telur það óviðeigandi.

Varðandi málið að öðru leyti þá held ég að við séum alveg sammála um það ég og hv. þm. að við þurfum að skoða þetta í heildarsamhengi. Ég endurtek áskorun mína til samgn. um að vegalögin verði tekin til endurskoðunar með tilliti til nýrra krafna í þjóðfélaginu, nýrra samgönguhátta og með tilliti til þess að núv. samgrh. hefur brotið þau svo lengi. Þá verður að skoða lögin, það er greinilegt.