Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 16:01:30 (2970)

1996-02-13 16:01:30# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[16:01]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að það séu miklar andstæður, hinn skapvondi maður sem hér stendur og sá blíði maður sem hér stóð á undan mér og brýnir aldrei raustina í þessum stól. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að hafa leiðrétt það sem hann sagði í hinni fyrri ræðu að hann væri sérstaklega andsnúinn því að hægt væri að standa við framkvæmdaáætlanir þó þær tækju til annarra staða en Reykjavíkur. Er ég þá að hugsa sérstaklega um Akureyri.

Hitt vil ég líka taka fram af marggefnu tilefni hér í þessum þingsal að mér var ekki kunnugt um að það væri blaðamaður staddur þar sem ég talaði á lokuðum fundi fyrir norðan og hef satt að segja ekki heyrt það sem útvarpið á að hafa haft eftir mér. Ég skal nú ekki segja hvort rétt er en hitt er rétt að flugmálaáætlun hefur verið afgreidd frá flugráði og verður sú áætlun lögð fyrir ríkisstjórn nú á föstudag og kemur fyrir Alþingi eins og rétt þykir að leggja hana fram í næstu viku þar sem þingflokksfundur verður ekki fyrr en á mánudag og er það í samræmi við þingvenjur eins og þingmenn þekkja. En flugmálaáætlun hefur sem sagt verið afgreidd frá flugráði.

Ég ítreka svo það sem ég sagði að það er verið að vinna bæði að vegáætlun til fjögurra ára og einnig að langtímaáætlun af vegamálastjóra og hans mönnum. Ég skal ekki um það segja hvort unnt verði að leggja þær áætlanir fyrir til umræðu á vorþingi eða hvort þær verða lagðar fram á haustþinginu.