Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 16:03:31 (2971)

1996-02-13 16:03:31# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[16:03]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að gagnrýna það að það væri sérstaklega vel gert við Akureyri, ég vil endurtaka það. Ég var að tala um að ég teldi vinnubrögðin ekki heppileg. Ég var ekki að taka þetta fram vegna þess að ég teldi að Reykjavík ein ætti að njóta einhvers betra í þessum málum heldur en önnur byggðarlög, langt frá því. Ég tel að ráðherrar eigi að hafa heildarsýn. Ég skil vel að hæstv. ráðherra leggur áherslu á Norðurlandskjördæmi eystra en það er mjög slæmt ef önnur kjördæmi fara að upplifa það þannig að það sé nauðsynlegt fyrir þau að fá sér sína samgrh. af því að samgrh. sé yfirleitt bara staddur á Norðurl. e. en hvergi annars staðar þannig að hin kjördæmin sjö þurfi að sameinast um sinn sérstaka samgrh. Það er kannski fyrirkomulag sem mætti skoða og væri í anda þeirrar nýlundu sem Sjálfstfl. hefur tekið upp í málatilbúnaði í seinni tíð eftir að minnihlutastjórn Kristjáns Pálssonar var stofnuð í sjávarútvegsmálum, sem er svo kapítuli út af fyrir sig.

Varðandi málið að öðru leyti held ég að aðalatriðið sé það að málin eru losaraleg hjá hæstv. ráðherra. Það er engin heildarsýn í þessum málum. Það er eitt ákveðið í dag og annað á morgun eftir því hvernig stendur á almanaki í sambandi við kjördæmisþing Sjálfstfl. hér eða þar eftir atvikum. Þess vegna endurtek ég að ég auglýsi eftir heildarsýn, eftir framtíðarsýn í samgöngumálum. Því að samgöngur og fjarskipti eru undirstaða almennilegs hagvaxtar og þess að þjóðin verði samkeppnisfær um lífskjör við aðrar þjóðir á komandi árum. Þetta vil ég leggja áherslu á, hæstv. forseti, og ég skora aftur á hæstv. ráðherra að láta samgn. fá þau drög að áætlun til fjögurra ára og langtímaáætlun sem liggja fyrir þannig að hægt verði að skoða þessa hluti í samhengi.