Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 16:20:42 (2975)

1996-02-13 16:20:42# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[16:20]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu meining okkar að þetta mál fái eðlilega og vandaða efnislega meðferð. Ef þörf krefur að kalla eftir frekari upplýsingum en liggja nú þegar fyrir nefndinni, þá verður það að sjálfsögðu gert.

Ég vil aðeins segja það sem gæti verið örlítið efnislegt innlegg í þessa umræðu að þetta snýr ekki síst að spurningunni um kostnað. Sú spurning verður mjög ofarlega á baugi í okkar umræðu hver kostnaðurinn verður við það annars vegar að leggja steinsteypu á vegina eða malbik eða klæðningu eða einhvern annan kost sem er til staðar. Það er það sem við þurfum m.a. að horfa til vegna þess að við erum að keppa að því að reyna að ná sem mestum árangri í því að leggja vegi. Það verður að horfa mjög á þessa hluti í eðlilegu samhengi. Það getur hins vegar verið svo eins og kom fram í ræðu hv. þm. áðan að við tilteknar aðstæður sé það hreinlega ekki verjandi að nota annað efni en steinsteypu af t.d. heilsufarslegum ástæðum eins og hv. þm. var að nefna áðan að væri komið upp úti í Noregi. Það verður auðvitað að skoða það. Þetta sýnir okkur það að málið er kannski dálítið margslungið og snýr að fleiri hlutum heldur en menn hafa gert sér í hugarlund í upphafi. En ég ítreka það að það er vilji okkar í samgn. Alþingis að þetta mál eins og önnur fái vandaða efnislega meðferð og síðan niðurstöðu í samræmi við hana. Að sjálfsögðu eins og ég sagði áðan, get ég ekki á þessari stundu greint frá því hver sú niðurstaða verður því að það liggur einfaldlega ekki fyrir.