Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 16:36:04 (2983)

1996-02-13 16:36:04# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[16:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. gerði að umtalsefni ræðu mína fyrr í þessum umræðum og þær vangaveltur sem ég hafði uppi um hlutverk og stöðu Framsfl. í þeim veruleika sem við okkur blasir núna, þ.e. þeim stórfellda niðurskurði sem hér á sér stað, ekki einasta á höfuðborgarsvæðinu þó að hann sé þar sýnu mestur, heldur einnig víða úti um land.

Mér var hins vegar ekki ljóst á ræðu hans hvort hann gengist við þessu öllu saman og viðurkenndi í raun að með tilkomu Framsfl. inn í nýja ríkisstjórn þýðir það eins milljarðs lækkun á heilu ári og hvort sú niðurstaða sé sérstakt hlutverk Framsfl. ellegar hvað.

Hitt veit ég að frambjóðendur Framsfl. víða úti um land höfðu um það orð að fremur yrði spýtt í lófana og gert enn betur en fyrr hafði verið í vegamálum og samgöngumálum. En aldrei heyrði ég það neins staðar að þeir orðuðu það svo mikið sem í hálfri setningu að þeir stefndu á það að skera niður jafnhressilega og raun ber vitni.

Virðulegi forseti. Það er rétt að halda því til haga sem rétt er og sanngjarnt. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að biðjast afsökunar á orðbragði mínu fyrr í dag. Í hita leiks notaði ég orð sem eiga hér ekki heima, enda hefur mér aldrei dottið til hugar að neinir þingmenn, úr hvaða flokki sem þeir eru, grípi til þess óyndisúrræðis að skrökva. Hins vegar lenda stundum sumir í því að lofa meira en þeir geta staðið við og það er auðvitað allt, allt annar hlutur þannig að ég biðst velvirðingar á ummælum mínum fyrr í dag.