Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 16:54:29 (2986)

1996-02-13 16:54:29# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[16:54]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það hefur sitthvað athyglisvert komið fram í þessari umræðu og það er góðra gjalda vert að vegamál séu rædd í þinginu oftar en ekki. Þótt tilefni þessarar umræðu sé næsta ömurlegt, kemur margt fram í henni sem er umhugsunarvert og getur þokað okkur eitthvað áfram. T.d. fannst mér í máli hv. síðasta ræðumanns ýmislegt skynsamlegt og vel mælt m.a. öryggismál vega. En niðurlagið í ræðu hv. 2. þm. Vesturl. þótti mér ekki vel til fundið, en þar réttlætir hann þá mynd sem blasir við með því að það hafi verið svo mikið gert á síðasta kjörtímabili. Ég held að þær fullyrðingar þurfi betri skoðunar við og það er margt sem kemur í hugann í sambandi við þá glansmynd sem dregin var upp af hæstv. samgrh. fyrrv. ríkisstjórnar og núv. ríkisstjórnar og lesa má um í síðasta ræðuhefti Alþingistíðinda frá síðasta þingi. Þar var gefið til kynna að stórauka ætti framlög til vegamála samkv. fjögurra ára vegáætlun sem þá var til umræðu. Og þar var sannarlega dregin upp glansmynd því látið var að því liggja að þar ætti að bæta við 3,5 milljörðum kr. eða svo og bætt við í raun inn í þá mynd á annan milljarð kr. umfram það sem réttmætt var. Þetta var skýrt dregið fram í umræðu um vegáætlun á þeim tíma og ætla ég ekki að fara frekar út í það.

Hins vegar er ástæða til þess, virðulegur forseti, að rifja það upp sem rætt var við umræðu um þá vegáætlun sem hæstv. samgrh. lagði fram á síðasta þingi hversu öfugsnúin þau vinnubrögð eru að fráfarandi ríkisstjórn sé að leggja fyrir þingið stefnumarkandi áætlun um vegamál til fjögurra ára eins og gerst hefur ítrekað. Síðan fer ríkisstjórnin frá, ný ríkisstjórn er mynduð og þá er fyrsta verk hinnar nýju ríkisstjórnar, að þessu sinni með sama hæstv. samgrh., að koma með breytingu á vegáætluninni sem sýnir niðurskurð upp á um einn milljarð kr. Það breytir ekki því hvort um niðurskurð eða aukningu er að ræða, hvers eðlis breytingin er. Við þurfum að hverfa frá þessum vinnubrögðum og leiða í reglur að ný vegáætlun sé lögð fram af nýrri ríkisstjórn í byrjun kjörtímabils og þá reynt að fella það að langtímaáætlun í vegamálum þannig að saman fari áætlun til fjögurra ára sem fyrsti hluti langtímaáætlunar sem stefnt hefur verið að að sé mótuð til tólf ára í senn og tekur þá viðkomandi áætlun til þriðjungs tímabils. Slíkt er vitræn áætlunargerð og líkur á því að þeir sem leggja fram fyrsta hluta slíkrar áætlunar geri það af einhverju raunsæi en noti ekki áætlunargerðina til þess að draga upp glansmynd í aðdraganda kosninga eins og gerðist á síðasta þingi. Þetta á við allar ríkisstjórnir og ég held að þeir sem líta hlutlægt á málin hljóti að geta fallist á að við þurfum að hverfa frá þessum vinnubrögðum sem hafa verið tíðkuð ítrekað í sambandi við mótun fjögurra ára vegáætlunar.

Svipurinn á þeirri vegáætlun sem samþykkt var á síðasta þingi og sem endurspeglast í þeirri niðurskurðaráætlun til ársins sem hér liggur fyrir, ber vott um það sem hefur orðið æ meira áberandi við gerð vegáætlunar að vegaféð er bútað niður í einstaka þætti, einstök átök eins og þau eru kölluð, þannig að það er mjög erfitt í rauninni að átta sig á heildarmyndinni sem við blasir. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem menn þurfi að taka til endurskoðunar. Það má segja að hin almenna fjárveiting til vegamála sé orðin hverfandi lítill hluti af heildarfjármagninu sem fer í hinu ýmsu hólf. Hæstv. núv. samgrh. hefur verið iðinn við að fjölga þeim, bætti að mig minnir einu eða tveimur við á síðasta þingi. Hann bætti a.m.k. við einum slíkum flokki og hafði aukið við safnið á fyrri þingum.

[17:00]

Sá stórfelldi niðurskurður sem hér er um að ræða upp á nær milljarð króna er af mörkuðum tekjustofnum. Það er verið að skera niður markaða tekjustofna til vegagerðar og svo er nú komið samkvæmt áætlun Félags íslenskra bifreiðaeigenda að aðeins um þriðjungi af þeim skattpeningum sem teknir eru af umferðinni er skilað til verkefna sem þeir eru áætlaðir til. Það er auðvitað ekki verjanlegt að ganga þannig fram. Hæstv. núv. samgrh. hefur verið öllum ráðherrum þessara mála iðnari við það að krukka í þessa mörkuðu tekjustofna og bætt þar við frá ári til árs að undanförnu og er nú komið í þetta horf að rétt um þriðjungur markaðra tekjustofna rennur til framkvæmda í vegamálum. Þetta hljótum við að gagnrýna harðlega.

Það er svo einnig til álita að Framsfl. sem hefur átt talsmenn í þessari umræðu ber ábyrgð á því sem hér er lagt til í þessum efnum og fest var í lög með fjárlagagerðinni. Það hefði þurft að segja sumum það áreiðanlega tvisvar fyrir síðustu kosningar að það yrði hlutskipti Framsfl. að bera ábyrgð á því í ríkisstjórn eins og nú er að slíkur niðurskurður er gerður í sambandi við vegaframkvæmdir. Niðurskurður til þessa málaflokks er alltaf tilfinnanlegur. Hann kemur misjafnlega niður eins og menn vita. Harðast hittir hann fyrir þau kjördæmi landsins þar sem ástand þessara mála er lakast. Þau kjördæmi eru sem kunnugt er Vestfirðir og Austurland þar sem ástand vega á heildina litið er langlakast í kjördæmum landsins. Nærri mun láta á Austurlandi að um helmingur af vegakerfinu sé án bundins slitlags þegar allt er talið. Það er ekki fjarri lagi þó að ég hafi ekki nákvæmar tölur um það og ástandið á Vestfjörðum er þaðan af lakara.

Þannig háttaði til þegar vegáætlun var mótuð á síðasta þingi að hluta af fénu var skipt eftir höfðatölureglu. Þá stóð til að hlunnfara þau kjördmi sérstaklega sem hafa lága prósentu í íbúafjölda en mikla þörf fyrir vegafé eins og rætt var í þeim umræðum. Ég harma vissulega ekki að ekki er um hlutfallslega sömu skerðingu að ræða hér í sambandi við þau efni eins og þá var áformað. Það tókst að fá nokkra leiðréttingu á við gerð vegáætlunar vegna andstöðu þingmanna af Austurlandi í stjórnarandstöðu og nokkurra annarra sem lögðust á sveif með okkur í þeim efnum þannig að nokkur lagfæring fékkst á því frá því sem ráðgert hafði verið af hæstv. ráðherra og meiri hluta samgn. eins og málin voru lögð fyrir á síðasta þingi. Það á síðan eftir að verða hlutskipti okkar þingmanna að fjalla um þessar tillögur að því er varðar kjördæmi okkar, í mínu tilvikinu stöðuna á Austurlandi. Ég veit ekki um hve háar upphæðir er að ræða en ekki mun það vera fjarri að í heild nálgist það um 100 millj. kr. allt talið til vegaframkvæmda í því kjördæmi, þar af hluti til nýframkvæmda. Það er ömurlegt að standa frammi fyrir því að slíkar tillögur séu til afgreiðslu hér að boði ríkisstjórnarmeirihlutans.

Ég tek undir margt af því sem hefur komið fram við þessa umræðu um nauðsyn þess að skoða samgöngumálin heildstætt, skoða öryggisþættina sérstaklega þegar vegafé er skipt. Ég hef verið talsmaður þess um langt árabil að gæta þess að ganga ekki um of á öryggissjónarmið bæði varðandi lagningu bundins slitlags en ekki síst í sambandi við brúargerð. Ég fagna því að það er aukinn skilningur og aukin umræða um að það verði að hverfa frá þeirri stefnu sem lengi var fylgt, að búa við einbreiðar brýr á vegum þar sem lagt er bundið slitlag á breiða vegi beggja vegna og þá slysahættu sem slíku fylgir. Það er eitt af þeim atriðum sem þarf nauðsynlega að taka á ásamt mörgum fleiri þáttum í sambandi við öryggismál í vegagerð og vegalagningu og í sambandi við umferðina almennt.

Einn þáttur sem er sérstakt áhyggjuefni og fylgir bættum vegasamgöngum er aukinn umferðarhraði, oft langt umfram það sem lög mæla fyrir og með afleiðingum sem ekki láta á sér standa. Sá tollur sem umferðin tekur í mannslífum er ákveðin afleiðing af því að þar tekst ekki að halda á málum eins og ætlað er til þess að tryggja öryggi. Þetta á m.a. við í sambandi við þungaflutninga sem fara fram á þjóðvegunum í vaxandi mæli og stofna mörgum sem um vegina fara í verulega hættu. Það er vissulega mikil þörf á því að reyna að reisa þar við skorður en um það ætla ég ekki að ræða frekar við fyrri umr. um þessa vegáætlun.

Ég vil aðeins ítreka að að ég tel að það sé rangt að staðið að skera niður vegafé eins og hér er gert. Það hefur ekki komið fram neitt við umræðuna sem tryggir það sem hæstv. samgrh. hefur látið að liggja að sá niðurskurður sem hér er um að ræða eigi að koma til greiðslu á skuldum vegna vegagerðar. Það væri út af fyrir sig í áttina ef það væri tryggt. En hæstv. ráðherra hefur ekki lagt fram nein held gögn að því leyti en vonandi skýrist það efni eins og fleiri við skoðun málsins í nefnd.