Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 17:11:33 (2989)

1996-02-13 17:11:33# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[17:11]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Þegar forveri minn lét af embætti sem samgrh. 1991 var ekki einu sinni í þeirri langtímaáætlun sem þá lá fyrir gert ráð fyrir Öxarfjarðarheiði þannig að eitthvað hefur það markmið verið þokukennt og í miklum fjarska.

En það er rétt hjá hv. þm. að um það hefur verið ágreiningur milli mín og hans hvort rétt sé að fara yfir fjöllin milli Norður- og Austurlands eða hvort stefna ætti á það að leggja veg, með ströndinni var nú sagt á þeim tíma á þeim tíma, um Melrakkasléttu til Vopnafjarðar. Í samræmi við það var hafin uppbygging á Hellisheiði og gert ráð fyrir henni í þeirri vegáætlun sem samþykkt var af ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar á sínum tíma. En á hinn bóginn var ekki gert ráð fyrir vegi yfir Fjöllin milli Norður- og Austurlands á þessari öld og um þetta varð ágreiningur okkar á milli.