Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 17:12:38 (2990)

1996-02-13 17:12:38# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[17:12]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Sagnfræðin riðlast heldur mikið hjá hæstv. samgrh. Ég ræð hæstv. ráðherra að lesa aðeins betur forsöguna, einnig frá þeirri tíð þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var samgrh. Það var aldrei hugsun og aldrei sett á blað að vegabætur um Hellisheiði væru liður í því að koma á traustum strandvegi um Norðausturland. Liður í því var að leggja jarðgöng undir Hlíðarfjöll milli Héraðs og Vopnafjarðar. Sú var okkar tillaga og flutt hér oftar en einu sinni. Það getur verið að það reyni á það innan tíðar að Alþingi þurfi að taka afstöðu til þess. Ég held að Austfirðingar þurfi að skerpa sig og við málsvarar Austurlands á Alþingi, til þess að reyna að tryggja það að í langtímaáætlun verði séð til þess að það verði staðið við fyrirheit um jarðgöng á Austurlandi fyrir lok þessa áratugar. Þar kemur vissulega til greina að leggja jarðgöng einmitt á milli þessara byggðarlaga.