Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 17:18:35 (2993)

1996-02-13 17:18:35# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[17:18]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að markaðir tekjustofnar hafa ekki allir nýst til vegamála, því miður, er óhætt að segja og undir það get ég alveg tekið með hv. 4. þm. Austurl. En við verðum að gera okkur grein fyrir því þegar við fjöllum um þetta, hvaðan og hvað hefði þá þurft og átt að skera niður af útgjöldum ríkisins ef við hefðum aukið vegaframkvæmdir svo mikið að við nýttum alla markaða tekjustofna í þágu vegagerðarinnar, t.d. til rekstrar sem er heilmikil upphæð. 30% af fjárveitingum til vegagerðar fer í rekstur vegakerfisins. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því og hv. 4. þm. Austurl. einnig hvað og hvar hefði átt að skera niður til að geta aukið vegagerð. Það er okkar vandi. Átti það að vera í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu eða hinu félagslega kerfi hvarvetna? Þetta er okkar vandi. Ég held að svo glöggur og reyndur þingmaður sem hv. 4. þm. Austurl. er, geri sér grein fyrir þessum vanda okkar því hann hefur sem stjórnarþingmaður og ráðherra staðið frammi fyrir þessum viðfangsefnum. En staða Sjálfstfl. og þingmanna Sjálfstfl. og ráðherra er að því leyti mjög sterk í þessu máli, að allt síðasta kjörtímabil var veitt miklum fjármunum til uppbyggingar vegakerfisins í landinu. Það er aðalatriði málsins og þess vegna getum við sjálfstæðismenn verið býsna sáttir, þó auðvitað vildum við hafa meiri fjármuni til uppbyggingar vegakerfisins eins og ég rakti hér í minni ræðu. Þörfin blasir alls staðar við.