Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 13:44:44 (3001)

1996-02-14 13:44:44# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[13:44]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það má kannski segja að málin hafi eitthvað skýrst við svar hæstv. forsrh. hér áðan hvað það varðar að stjfrv. nýtur væntanlega meirihlutafylgis og framgangur þess er tryggður. Eftir stendur hitt að það mátti ráða af orðum hæstv. forsrh. að ef þau leiðu mistök hefðu ekki átt sér stað að það gleymdist að tilkynna samstarfsflokknum um þennan sérkennilega frumvarpsflutning, þá væri það að öðru leyti í lagi, þá væri það að öðru leyti eðlileg uppákoma að stjórnarþingmenn taki sig til og myndi hóp eða minnihlutastjórn og flytji frv. þvert ofan í stjfrv. um gjörbreytta stjórnarstefnu.

Ég tel að þrátt fyrir þessi svör hæstv. forsrh., sem auðvitað er að reyna að bjarga í horn eins og sagt er heldur klúðurslegri uppákomu í stjórnarsamstarfinu, þá standi eftir óvissan um það hvort svona uppátæki séu yfir höfuð eðlileg út frá þingræðisvenjum og því sem venjulega telst fylgja því að vera stuðningsmaður ríkisstjórnar. Væntanlega er niðurstaðan sú að það beri að líta á þetta sprikl eða lauslæti eða hvað sem við hæfi er að kalla það, sem fjórir hv. þm. Sjálfstfl. hafa þarna sýnt, sem alvöruleysi og nánast marklaust af þeirra hálfu og minnihlutastjórn hv. þm. Kristjáns Pálssonar sé því harla valdalítil þegar betur er að gáð. Ég tel hins vegar, herra forseti, að það sé nauðsynlegt að hæstv. forsrh. sé viðstaddur þessa umræðu og geti tekið efnislega þátt í henni vegna þess að eftir stendur að á bak við tillöguflutninginn eða frumvarpsflutninginn eru ólík sjónarmið sem hljóta eðli málsins samkvæmt að geta haft áhrif í meðförum mála á þinginu. Ég vek athygli á því og minni á að einn af fjórmenningunum, einn af flutningsmönnum frv. ,,sem gengur þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar`` er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn. sem á að stjórna vinnu fagnefndar þingsins að þessum málum. Því er að mínu mati ekki hægt að taka þessa uppákomu þannig að þarna hafi það eitt gerst að það hafi verið eitthvert sambandsleysi á milli stjórnarflokkanna um það að láta vita af tillöguflutningnum. Ef málið er yfir höfuð tekið alvarlega á annað borð þá er þarna um mjög óvenjulega uppákomu að ræða sem hlýtur að teljast næsta einstæð í samstarfi flokka í ríkisstjórn.